General Motors hyggst fjárfesta 2 milljörðum dala til að breyta verksmiðju í Tennessee í verksmiðju sem framleiðir rafbíla.

Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hyggst fjárfesta fyrir 2 milljarða bandaríkjadala til að breyta verksmiðju sinni í Spring Hill í Tennessee í verksmiðju sem sérhæfir sig í framleiðslu á rafbílum. Verður umrædd verksmiðja þá sú þriðja á vegum bílaframleiðandans sem framleiðir rafbíla. Reuters greinir frá.

Bílaframleiðandinn ku einnig stefna á að opna rafbílaverksmiðju í Mexíkó, en ekki liggur fyrir hvenær sú verksmiðja verður tekin í gagnið.

General Motors er með fleiri fjárfestingar á döfinni, því á dögunum greindi bílaframleiðandinn frá því að fjárfest verði 32 milljónum dala í verksmiðju í bænum Flint í Michigan. Verksmiðjan framleiðir Chevrolet Silverado og GMC Sierra, sem báðir eru pallbílar í stærri kantinum. 

vb.is sótt 25/10/2020