Ljósmynd: Ferlir 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag á Degi umhverfisins, friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og liggur í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um er að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna má ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu.

Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

,,Mér er bæði ljúft og skylt að friðlýsa Brennisteinsfjallasvæðið gegn orkuvinnslu á Degi umhverfisins. Verkefnisstjórn rammaáætlunar mat verðmæti náttúrufars Brennisteinsfjalla á Reykjanesi hátt vegna þess að þarna er um að ræða stærstu óbyggðu víðerni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það eru forréttindi fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins að eiga slík verðmæti í túnfætinum. Að eiga verðmæti sem þessi fylgir ábyrgð og um þau stöndum við vörð með þessari friðlýsingu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Friðlýsing háhitasvæðis Brennisteinsfjalla gegn orkuvinnslu er hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018. Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.

Af vef Stjórnarráðsins 27/04 2020