Stöðugt streymi slæmra frétta af umhverfismálum geta valdið kvíða, sérstaklega fyrir einstaklinga sem búa í löndum sem hafa orðið hvað harðast fyrir barðinu á hlýnun jarðar og óveðri af völdum þess. Það getur verið erfitt að halda ró sinni í daglegu amstri þegar við upplifum að við höfum ekki stjórnina. Vistkvíði, loftslagkvíði eða hvað sem við getum kallað það getur haft afdrifarík áhrif á þann sem þjáist af honum.

Ég rakst á á áhugaverða grein sem nefnist Moving Forward from Eco-Anxiety, eftir Maggie B en hún hefur þurft að horfast í augu við vistkvíða og segir að það hafi verið hinn mesti lærdómur fyrir sig, hún deilir með okkur reynslu sinni sem gæti gagnast þeim sem eru að takast á við þess háttar kvíða. Hér á eftir kemur lausleg þýðing á því sem Maggie hefur að segja við okkur.

Það þarf ekki að vera svart eða hvítt

Engin sóun, ekkert kolefnisspor, engin umhverfisáhrif, algjör sjálfbærni o.s.frv. það væri hægt að halda lengi áfram. Þetta er rosalega strangur lífsstíll með mörgum reglum.

Við skulum gefa Maggie orðið:

Einu sinni gekk ég svo langt að ég var komin í næstum núll í sóun, en á kostnað geðhelsu minnar og líðan. Þegar ég byrjaði í nýrri vinnu þá var það mitt fyrsta verk að fara yfir endurvinnsluáætlun fyrirtækisins og tók síðan að mér að sjá um alla endurvinnslu fyrir fyrirtækið. Ég passaði upp á það að vinnustaðurinn væri ekki of langt í burtu því ég þoldi ekki þá tilhugsun að þurfa að keyra langar leiðir á bíl og brenna öllu þessu eldsneyti. Ég fékk mér því litla vespu til þess að ferðast á. Vistkvíðinn minn varð einnig til þess að ég tók ekki þátt í félagsstarfi ef það var of langt í burtun frá heimili mínu.

Stanslaust áreiti um vistvænan lífsstíl getur hreinlega haft skaðleg áhrif á heilsuna að mati Maggie B.

Einu sinni í viku fór ég út um allan bæ til að finna réttu verslanirnar þar sem ég vissi nákvæmlega hvaða vörur ég gæti keypt sem voru þær staðbundnustu, lífrænustu en þó hagkvæmustu, þar sem ég gæti komið með mitt ílát eða þar sem boðið var upp á pappirsumbúðir. Ég gat ekki keypt snakk af því að það kom í plasti, svo ég reyndi að búa til mitt eigið snakk og kex. Ég pantaði aldrei tilbúinn mat til að taka með heim.

Ég reyndi að koma á jarðgerð fyrirtækinu sem ég vann hjá. Ég var meira að segja búin að finna peningastyrk sem stóð undir 50% kostnaðar. Tillögu minni var hafnað og aldrei hrint í framkvæmd vegna þess að fyrirtækinu fannst jarðgerð „of gróf“. Ég hætti að lokum í því starfi vegna þess að gildi mín og fyrirtækisins sem ég vann hjá voru á öndverðum meiði.

Að finna milliveginn

Líf mitt einkenndist af öfgum og ég hafði ekkert svigrúm til að gera undantekningu frá reglunum. Ég dæmdi og skammaðist mín allan tímann og það varð aðal hvatinn að hegðun minni. Eftir margra ára líf sem var gegnsýrt af þessum öfgum, áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei orðið hin fullkomna vistvera eða ofurhetja umhverfismála á samfélagsmiðlum. Það tók mig smá tíma að átta mig á þessu en það var allt í lagi.

Sama hversu mikið ég skammaði mig og lét sjálfa mig finna til sektarkenndar yfir því að hafa ekki gert meira, þá átti það ekki eftir að bæta neitt í stóra samhenginu. Að vera búin að finna milliveginn, þýðir fyrir mig að ég leitast við að gera það besta sem ég get og hef pláss fyrir að sveigja reglurnar. Það þýðir að til þess að ég geti lifað sjálfbærum og umhverfisábyrgum lífsstíl til lengri tíma þarf ég að draga mörk varðandi það sem ég hef stjórn á og hverju ég er tilbúinn að fórna. Ef ég héldi áfram að lifa lífi mínu með þessum ströngu ófrávíkjanlegu reglum, myndi það bara ýta undir vistkvíða minn. Ég komst að því að ég er sú eina sem get tekið ákvarðanir sem varða lífsstílsinn sem ég vel að lifa.

Skilum skömminni

Það sem ég hef afrekað virðist svo lítið í samanburði við það sem aðrir eru að gera. Ég var ekki að setja af stað hreyfingu eins og Greta Thundberg. Ég var ekki heldur að þróa uppfinningu til að hreinsa höfin eins og hinn 17 ára Boyan Slat. Ég var ekki að berjast í fremstu víglínu náttúruverndarsinna eins og uppáhalds rithöfundurinn minn Lawrence Anthony. Þessir hlutir voru einfaldlega ekki í mínu valdi. Þessi samanburður varð ekki endilega til þess að ég vildi vinna meira á eigin vegum. Í staðinn eyddi ég dýrmætri andlegri orku í að rífa mig niður vegan þess að ég var ekki nógu mikið eins og þessir einstaklingar. Margir nota skömm sem tæki til breytinga en það er stór munur á skömm og ábyrgð.

Ábyrgð í stað skammar

Allir geta gert eitthvað en enginn getur gert allt, þetta er gott að hafa á bak við eyrað ef þú ert að bugast af einhverskonar loftslagskvíða eð vistkvíða. Annað gott ráð við loftslagskvíða er að leita uppi jákvæðar fréttir af loftslagsmálum til að fá balans á neikvæðu fréttirnar.  Happy Eco NewsThe Good News Network og One Tree Planted eru dæmi um miðla sem færa okkur jákvæðar fréttir af loftslagsmálum.

Allir þurfa að axla ábyrgð en enginn á að þurfa að skammast sín fyrir lifa ekki hinum fullkomna vistvæna lífsstíl sem er alls ekki á hvers manns færi.

Ef þú veist ekki hvar þú átt að byrja við það að leggja þitt af mörkum án þess að ætla að gera allt, gæti greinin Átta einföld ráð til vistvænna lífs hjálpað þér af stað.

Hægt er að lesa restina af greininni hennar Maggie B. hér.