BM Vallá hefur fyrst íslenskra steypuframleiðenda fengið útgefna EPD-umhverfisyfirlýsingu á steinsteypu. Umhverfisyfirlýsingin byggir á alþjóðlegum stöðlum og hefur verið vottuð af norsku EPD-stofnuninni, EPD-Norge.

„Umhverfisyfirlýsingin þýðir að nú er hægt að öðlast yfirsýn yfir og fá nákvæmar upplýsingar um umhverfisáhrif steinsteypunnar, allt frá öflun hráefna til afhendingar, þar með talið sjálft kolefnissporið,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, sem rekur BM Vallá.

„Betri yfirsýn í krafti slíkrar umhverfisyfirlýsingar gefur einnig möguleika á að framleiða steypu fyrir viðskiptavini með lægra kolefnisspor en gerist og gengur. Slík vistvænni steypa gæti verið með allt að 35% minna kolefnisspor.“

Þorsteinn segir félagið stollt af því að hljóta þessa vottun og geta veitt viðskiptavinum BM Vallár vistferilsgreiningu steinsteypunnar sem þeir nýta í byggingakosti sína.

„Að baki þessarar yfirlýsingar liggur mikil undirbúningsvinna af hálfu starfsmanna BM Vallá og það er okkur mikið ánægjuefni að þetta hefur nú verið staðfest. EPD-umhverfisyfirlýsingin er eitt skref af mörgum sem BM Vallá er að stíga þessi misserin í átt að því að gera framleiðsluna eins umhverfisvæna og kostur er og lækka kolefnisspor framleiðslu fyrirtækisins,“ segir Þorsteinn ennfremur.

vb.is sótt 18/09/2020