Samanlagður hagnaður Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku nam 32 milljörðum króna á síðasta ári.

Umsvif þriggja stærstu fyrirtækja landsins sem framleiða og selja raforku eru, líkt og meðfylgjandi gröf sýna, allveruleg. Samanlagður hagnaður orkufyrirtækjanna nam ríflega 32 milljörðum króna á síðasta ári og námu samanlagðar tekjur tæplega 124 milljörðum króna á tímabilinu.

Ekkert fyrirtæki á landinu býr yfir meira eigin fé en Landsvirkjun, en um síðustu áramót nam eigið fé ríkisfyrirtækisins rúmlega 306 milljörðum króna. Eigið fé Orkuveitunnar er að sama skapi verulegt og nam rúmlega 182 milljörðum króna um síðustu áramót. Eiginfjárstaða HS Orku er einnig sterk og nam tæplega 37 milljörðum króna undir lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar var 51% um síðustu áramót, 49% hjá Orkuveitu Reykjavíkur og loks nam eiginfjárhlutfall HS Orku 64% í árslok 2019. Þá námu eignir Landsvirkjunar hvorki meira né minna en ríflega 600 milljörðum króna, eignir Orkuveitu Reykjavíkur námu tæplega 370 milljörðum króna og eignir HS Orku námu ríflega 57 milljörðum króna.

Tvö félaganna, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, eru í eigu opinberra aðila. Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins á meðan Orkuveitan er að langstærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, en Akraneskaupstaður og Borgarbyggð eiga einnig lítinn hlut í félaginu. HS Orka er hins vegar í helmingseigu samlagshlutafélagsins Jarðvarma, sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, og hinn helmingurinn er í eigu sænska félagsins Magma Energy. Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar, Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar og Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku.

COVID-19 faraldurinn hefur rýrt hag Landsvirkjunar. Lækkaði hagnaður félagsins á fyrri árshelming núverandi árs um 40% á milli ára og var það, líkt og fyrr segir, að mestu tilkomið vegna áhrifa heimsfaraldursins. Var hagnaður tímabilsins 5,6 milljarðar króna, samanborið við 9,4 milljarða króna hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2019. Þá námu tekjur Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 31 milljarði króna, en árið áður námu tekjurnar á sama tímabili hátt í 36 milljörðum króna. Vegna faraldursins hefur Landsvirkjun stutt við bakið á sínum stærstu viðskiptavinum, stórnotendum, með því að bjóða þeim rafmagn á afsláttarkjörum út októbermánuð.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.

vb.is sótt 25/10/2020