Til að Íslendingar geti náð verulega góðum árangri á Parísartímabilinu verða stjórnvöld að tryggja nauðsynlega innviði svo skapaðar verði forsendur fyrir einkaframtak í loftslagsmálum. Nú þegar Kyoto-tímabilinu er að ljúka stefnir í að Íslendingar losi 20% meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en 1990, þveröfugt við þann 20% samdrátt sem landið hafði skuldbundið sig til að ná. Við blasir að kaupa þurfi losunarheimildir fyrir milljarða króna því loftslagsskuld Íslands eftir Kyoto-tímabilið verður 4,1 milljón tonn koltvísýringsígilda.

Grein Guðmundar á Vísi

Um þetta skrifar Guðmundur Sigbergsson, stofnandi vottunarstofunnar iCert, í grein sem birtist á Vísi 3. nóvember. Hann vísar í nýtt álit Loftslagsráðs frá 26. október þar sem bent er á veikleika í því hvernig staðið er að kolefnisjöfnun hér á landi. Sá veikleiki geti leitt til þess að árangur í loftslagsmálum eigi eftir að láta á sér standa, verði ekki gripið til aðgerða strax.

Guðmundur fer yfir árangur Íslendinga á Kyoto-tímabilinu sem lýkur nú um áramótin. Markmiðið var að draga úr losun um 20% frá því sem var 1990 en útlit er fyrir að losunin verði þvert á móti 20% meiri. Íslendingar hafi notað allar losunarheimildir sínar og séu komnir á yfirdrátt. Útlit sé fyrir að losunarheimildir vanti á móti 4,1 milljón tonna af koltvísýringi sem fellur í gjalddaga í árslok 2022. Líklega verði Íslendingar þá að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða króna. Horfur séu á að verð á slíkum heimildum fari hækkandi. Nú sé rétt að horfa eftir kauptækifærum þegar hagstætt verð á heimildum býðst. Engin merki sjáist þó í áætlunum ríkisins um að til standi að kaupa losunarheimildir.

Skattlagning og skattaívilnanir til að berjast við loftslagsbreytingar telur Guðmundur ekki nægja til árangurs. Virkja verði einkaframtakið og „búa svo um hnútana að hér skapist hvatar til einkaframtaks í loftslagsmálum“, eins og hann skrifar orðrétt. Í áliti Loftslagsráðs eru tíunduð þrjú atriði sem brýnast sé að ráðast í úrbætur á. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi alþjóðlega viðurkennd aðferðafræði vegna útgáfu kolefniseininga, í öðru lagi miðlæg skráning kolefniseininga og afskráningar þeirra vegna notkunar en í þriðja lagi að opinberir aðilar og einkafyrirtæki verði að setja yfirlýsingar sínar um kolefnisjöfnun fram af ábyrgð og í samræmi við viðurkennd viðmið.

Alþjóðlega hafa kolefnismarkaðir verið í þróun í áratugi, bendir Guðmundur á. Kaupendur kolefnisjöfnunar geri miklar kröfur til kolefniseininga og eins séu ríkar kröfur gerðar til þeirra sem setja fram fullyrðingar um kolefnisjöfnun á starfsemi sinni. Til séu ýmsir kröfustaðlar um loftslagsverkefni á borð við Gold Standard, Verra, ÍST EN ISo 14064-2:2019 sem allir byggist á ákveðnum meginreglum. Þær reglur verði öll loftslagsverkefni að uppfylla. Verkefni þurfa að fela í sér nettóviðbót bindingar við það sem ella hefði orðið. Þau þurfa að vera mælanleg. Aðferðafræðin verður að vera gagnsæ. Takast verður á við leka kolefnis úr verkefnunum. Óháður aðili þarf að taka verkefnin út og þau þurfa að vera skráð í miðlægri skrá sem er opin almenningi. Loftslagsverkefni hafa nefnilega takmarkað gildi nema kolefnisjöfnunin af þeim sé skráð í opna og miðlæga skrá þar sem allir geta gengið úr skugga um að sú jöfnun sem haldið er fram að hafi orðið sé raunveruleg. Fullyrðingar um kolefnisjöfnun eða kolefnishlutleysi sem ekki eru byggðar á viðurkenndri aðferðafræði eða stöðlum hafa takmarkað gildi, skrifar Guðmundur.

Stofnandi iCert segir jafnframt í grein sinni að byggja þurfi upp innviði svo hvatar skapist til einkaframtaks í loftslagsmálum. Þar séu veikleikarnir sem Loftslagsráð telji brýnast að ráðist verði í úrbætur á. Jákvæð teikn séu engu að síður á lofti hérlendis. Sem dæmi um það bendir Guðmundur á þau kröfuviðmið sem Skógræktin hefur gefið út til skógræktar sem grundvöll kolefnisjöfnunar og kölluð eru Skógarkolefni. Þá hafi iCert fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði með samvinnu við Carbfix, Sorpu, Climeworks og fleiri til að gefa megi út kolefniseiningar með t.d. steinrenningu koltvísýrings í bergi. Á vef iCert megi hafi líka verið gefin út leiðbeinandi viðmið um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi, aðgengileg öllum sem vilja setja fram fullyrðingar um slíkt. „Þar að auki er unnið að því að tryggja aðra innviði sem eru nauðsynlegir hérlendis, eins og kolefnisskrá, til þess að hér geti þróast kolefnismarkaðir í takt við það sem gengur og gerist alþjóðlega,“ skrifar hann einnig.

Undir lok greinarinnar telur Guðmundur allar forsendur til staðar svo Ísland geti náð verulega góðum árangri á Parísartímabilinu. Þó verði að tryggja nauðsynlega innviði sem njóti viðurkenningar stjórnvalda svo skapaðar verði forsendur fyrir einkaframtak í loftslagsmálum. Slíkt einkaframtak geti ekki einungis stuðlað að góðum árangri landsins á Parísartímabilinu heldur einnig að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu sem dregið geti úr efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins.

Texti: Pétur Halldórsson

skogur.is sótt 25/11/2020