Loftmengun yfir stórborgum hefur snarminnkað, dregið hefur úr alþjóðaflugi og umferðarteppur heyra víða sögunni til, í bili að minnsta kosti. Hvernig spila loftslagsvá og heimsfaraldur nýrrar kórónaveiru saman? Leiðir heimsfaraldurinn til bakslags í baráttunni við loftslagsbreytingar eða er hann stökkpallur til þess að breyta hagkerfinu og venjum fólks? Ýttu loftslagsbreytingar jafnvel undir það að veiran sem veldur COVID-19 tók stökkið yfir í menn? 

Íbúar kínverskra stórborga anda léttar

Gervihnattamyndir sýna minni köfnunarefnisdíoxíðs mengun yfir Kína og Ítalíu. Í febrúar minnkaði losun koltvísýrings í Kína um 25% – það skiptir sköpum því Kína er ábyrgt fyrir um þriðjungi heimslosunar. 

fr_20200323_134359
Köfnunarefnisdíoxíðsmengun yfir Kína minnkaði mikið eftir að stjórnvöld þar gripu til aðgerða gegn COVID-19. (Mynd: Wikipedia)

Síðastliðin ár hafa ítrekað borist fréttir af mikilli loftmengun í Kína og öðrum Asíuríkjum. Fólk í Peking og fleiri stórborgum bar áður grímur til að forðast að anda að sér hættulegum svifryksögnum. Sérfræðingar telja að langvarandi loftmengun hafi orðið til þess að fleiri veiktust illa en ella í Kína, lungu fólks voru veik fyrir.

Tollur óbreytt ástands

Talið er að loftmengun valdi átta milljónum dauðsfalla í heiminum á hverju ári. Í breska blaðinu Guardian er vísað í bráðabirgðaútreikninga bandarískra vísindamanna, þeir gefa til kynna að stórminnkuð loftmengun í Kína síðastliðnar vikur hafi komið í veg fyrir tugþúsundir ótímabærra dauðsfalla.

Marshall Burke, fræðimaður við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, segir þó rangt að halda því fram að heimsfaraldrar hafi jákvæð áhrif á lýðheilsu, raunar eigi óbeinar afleiðingar COVID-19 faraldursins á heilbrigði að stórum hluta eftir að koma fram. Áhrif faraldursins á loftmengun sýni þó þann toll sem óbreytt ástand í mengunarmálum tekur og fáir gefa gaum. 

COVID-19 sló Grétu við

Árið 2019 var ár loftslagsmótmæla og margir vöknuðu til vitundar um að breyta þyrfti lífsháttum en segja má að COVID-19 hafi á einni nóttu haft í för með sér meiri beinan loftslagsávinningi en allar aðgerðaáætlanir ríkisstjórna, öll loftslagsverkföll og Gréta Thunberg.

Árangur, aðlögunarhæfni og blóð

Viðbrögðin við COVID-19 sýna hvað hægt er að grípa til afdrifaríkra aðgerða á stuttum tíma ef viljinn er fyrir hendi – aðgerðirnar sem ráðist hefur verið í til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 eru að mörgu leyti svipaðar þeim sem þarf að ráðast í til að sporna gegn loftslagsvánni. Viðbrögðin sýna líka fram á aðlögunarhæfni almennings sem víða hefur kollvarpað lífsháttum sínum á örfáum dögum. Á móti kemur að ferðaþjónustunni og hagkerfinu blæðir. Flugfélög segja upp fólki. Einkaneysla dregst saman. Við þurfum að halda áfram að lifa. Spurningin er hvort faraldurinn geti hjálpað okkur að átta okkur á því hvernig við getum gert það og samhliða tekið á stærstu ógnum samtímans. 

Tækifæri til að æfa sig

Sumir sjá COVID-krísuna sem tækifæri til að undirbúa sig fyrir það sem koma skal. Ein þeirra er Sally Uren, sem fer fyrir félagasamtökunum Forum for the future. Hún telur að almenningur fái tækifæri til að æfa sig í loftslagsvænni lífsháttum og samfélög fá æfingu í að standa saman og sýna seiglu. Það gefist andrými til að endurhugsa fjármálakerfið þannig að það virki til framtíðar og efnahagurinn geti blómstrað án neikvæðra loftslagsáhrifa. Loks telur Uren að við fáum tækifæri til að átta okkur betur á þessum heimi sem við búum í; hvernig allt tengist og hvernig kerfin sem þurfa að breytast virka. Hugsanlega leiði faraldurinn til þess að fleiri vinni að heiman, það fari fram fleiri fjarráðstefnur og fólk endurskoði viðhorf sín til ferðalaga, það myndi vera skref í átt að kolefnishlutleysi.

Umhugað um galla alþjóðavæðingar

John Bryson, prófessor í efnahagslegri landfræði við háskólann í Birmingham í Bretlandi segir COVID-19 varpa ljósi á gallana við alþjóðavæðinguna. Hún hafi marga kosti, svo sem frjáls viðskipti og ferðalög en hún ýti líka undir mengun og auki hættu á því að smitsjúkdómar dreifist um heiminn. Hann segir mikilvægt að faraldurinn leiði til umræðna um ábyrg viðskipti og hvernig megi endurhanna framleiðslukerfi með það í huga að minnka umhverfisáhrif og draga úr hættu á faröldrum. 

Núllast ávinningurinn út? 

Ekki eru allir vissir um að COVID-19 sé sérstakur vinur loftslagsins. Í grein á vef Scientific american er því  velt upp hvort orkunotkun heimila í Bandaríkjunum aukist ekki nú þegar fólk er meira heima og núlli út ávinningin af minni umferð. Það er varla hræða á ferð á Times square eins og sést á þessu beinstreymi. 

https://youtu.be/mRe-514tGMg

„Samdrátturinn í losun er skammgóður vermir,“ segir bandaríski loftslagsaðgerðasinninn Bill McKibben, þegar faraldurinn verði genginn yfir fari allt á fullt og í Kína verði líklega fjárfest duglega í innviðum til að koma efnahagskerfinu aftur af stað. 

Kreppa ekki góð loftslagslausn

Kannski erum við að sigla inn í kreppu. Í kreppum dregur yfirleitt úr losun gróðurhúsalofttegunda en fæstir vilja meina að kreppa sé lausn á loftslagsvandanum í sjálfu sér – án stefnubreytinga sé samdrátturinn ekki sjálfbær. Að mati Corinne Le Quéré, prófessors í loftslagsvísindum við Háskólann í Austur-Anglia, er líklegt að COVID-efnahagslægðin hægi á aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda þetta árið, hún telur ólíklegt að losunin minnki beinlínis. Le Quéré segir að með þessu fáist aukinn tími til aðgerða; þess að þróa nýja tækni, lækka verð á endurnýjanlegum orkugjöfum og gefa almenningi færi á að þrýsta á stjórnvöld. 

Sólarokan gæti fengið skell

Sumir óttast bakslag í loftslagsmálum vegna COVID-19. Óljóst er hvort loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, fer fram í Glasgow í desember, ráðstefnan á að vera sú mikilvægasta frá því Parísarsamkomulagið var samþykkt árið 2015. Alþjóðaorkuráðið IEA telur að langtímaafleiðingar faraldursins á loftslagsaðgerðir geti orðið neikvæðar, faraldurinn geti orðið til þess að seinka orkuskiptum, hætt sé við því að sala á rafmagnsbílum dragist saman og útlit fyrir samdrátt í sólarorkugeiranum í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum – til að koma í veg fyrir þetta þurfi stjórnvöld að ráðast í grænar fjárfestingar. Sjötíu prósent af fjárfestingum á sviði grænna orkugjafa séu drifnar áfram af ríkisstjórnum.

Ráðið hefur líka hvatt stjórnvöld til að nota tækifærið nú þegar olíuverð er lágt til þess að draga úr ríkisstyrkjum til olíufyrirtækja og beina þeim frekar inn í heilbrigðiskerfin. 

Ólík viðbrögð við tveimur ógnum

Sumir velta því fyrir sér hvers vegna stjórnvöld taki loftslagsvána ekki jafn alvarlega og COVID-19. Loftslagsbreytingar hafi þegar kostað mörg mannslíf og útlit fyrir að innan tveggja áratuga dragi loftslagshamfarir um 250 þúsund til dauða á ári.

Sálfræðingar sem tímaritið Grist ræddi við nefna nokkur atriði sem þeir telja skýra þetta – í fyrsta lagi er COVID-19 ný ógn og fólk bregst sterkar við nýjum ógnum en þeim sem hafa verið til staðar lengi. Í öðru lagi er baráttan við COVID-19 afmarkaðri í tíma, tekur líklega nokkra mánuði, ekki áratugi. Í vefritinu The Conversation nefna sálfræðingur og loftslagsfræðingur nokkur atriði til viðbótar. Til dæmis það að COVID-19 er bráðari ógn, áhrif aðgerðaleysis núna koma fram innan nokkurra vikna, ekki ára eða áratuga. Þá telja þeir aðgerðir til að bregðast við COVID-19 einfaldari og ekki krefjast jafn mikillar samvinnu þjóða.  Loks má nefna að fólk auðveldara með að ímynda sér hvernig COVID-19 kann að hafa áhrif á það sjálft og þess nánustu, nákvæmar lýsingar á því hvernig sjúkdómnum vindur fram og myndir frá yfirfullum sjúkrahúsum hjálpa þar til, áhrif loftslagsbreytinga á einstaklinginn eru óræðari. 

COVID-aðgerðir meira truflandi en loftslagsaðgerðir

Í greininni á The Conversation segir að viðbrögðin við COVID-19 veiti von um að hægt sé að grípa til harðra aðgerða í loftslagsmálum, takist stjórnmálamönnum að rífa sig upp úr andvaraleysinu. Greinarhöfundar segja allt benda til þess að stefnubreytingar sem ráðast þurfi í til að sporna gegn loftslagsbreytingum hefðu mun minni truflun í för með sér efnahagslega, samfélagslega og menningarlega en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til víða um heim vegna COVID-19. Þegar COVID-rykið sest megi sækja styrk í þessa tíma sem við lifum nú og líta á þá sem sönnun þess að samfélög okkar séu ekki dæmd til þess að fljóta sofandi að feigðarósi. 

Ógnir sem spegla hver aðra og opna á samvinnu kynslóða

Nicholas Agar, siðfræðiprófessor við Victoria háskóla í Wellington, Nýja-Sjálandi. Sér COVID-19 og loftslagsvána sem tækifæri til þess að efla samvinnu og samhug þvert á kynslóðir. Þessar ógnir spegla að hans mati hver aðra. Eldra fólk hafi upp til hópa minni áhyggjur af loftslagsvá – þar sem það á ekki eftir að verða vitni af verstu afleiðingunum. Ungt fólk lítur vandann allt öðrum augum, það hrópar framtíðin okkar, aðgerðir strax. Agar segir að í COVID-krísunni sé þetta öfugt. Unga fólkið óttist veiruna minna en það eldra og sé kannski ekki jafn tilbúið til að gera varúðarráðstafanir. Þetta sýni fram á mikilvægi þess að kynslóðir standi saman andspænis stórum ógnum. 

Svartidauði, miltisbrandur og breyttar ferðir leðurblaka

Að minnsta kosti einni spurningu er enn ósvarað – er hægt að kenna loftslagsbreytingum um COVID-19 faraldurinn? Er það vegna loftslagsbreytinga sem veiran hoppaði úr beltisdýrum eða leðurblökum yfir í menn?

Áratugum saman hafa vísindamenn varað við því að hnattræn hlýnun geti leitt til þess að smitsjúkdómar verði tíðari. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur talað um tengsl milli loftslagsbreytinga og farsótta, hlýrri vor og rakari sumur geti aukið líkur á því að rottur og flær beri svartadauðasmit í menn. Þá geti bráðnun sífrera víða um heim leyst miltisbrandsgró úr læðingi. 

Aaron Bernstein, sem stýrir miðstöð lýðheilsu og loftslagsmála við Harvard-Háskóla í Bandaríkjunum, bendir á að mennirnir hafi breytt samsetningu andrúmsloftsins og lagt undir sig búsvæði dýra víða um heim. Þrengri búsvæði auki samgang milli ólíkra dýrategunda, þá hafi breytt veðurfar orðið til þess að dýr flytji sig á ný svæði, farfuglar fljúga annað, fiskgegnd breytist. Allt geti þetta ýtt undir smitsjúkdómafaraldra því tegundir komist í kynni við aðrar sem þær hafa lítið umgengist – þessar tegundir geta borið veirur og sýkla hver í aðra og það geta orðið til nýjar óværur. Bernstein segir ómögulegt að segja til um hvort og þá hvaða þátt loftslagsbreytingar og búsvæðamissir hafi átt í tilurð COVID-19. Sjúkdómurinn reki uppruna sinn til leðurblaka eða beltisdýra sem seld voru á markaði í Wuhan – en það liggi ekki fyrir hvort breytt hegðun leðurblaka, sem halda sig á öðrum svæðum en áður vegna loftslagsbreytinga, hafi haft áhrif.

ruv.is 30/03/2020