Íslenska fyr­ir­tækið Car­bon Ice­land ehf. áform­ar að reisa loft­hreinsi­ver á Íslandi sem ger­ir kleift að hreinsa og og binda eina millj­ón tonna af CO2 (kolt­ví­sýr­ingi) úr and­rúms­lofti. Áætlað er að fram­kvæmd­in kosti um 140 millj­arða króna en verið verður starf­rækt við Bakka á Húsa­vík.

Byrjað var á und­ir­bún­ingi þessa verk­efn­is fyr­ir tveim­ur árum og hef­ur Car­bon Ice­land náð sam­komu­lagi við kanadíska há­tæknifyr­ir­tækið Car­bon Eng­ineer­ing um að nota svo­kallaða „Direct Air Capt­ure“- tækni sem fyr­ir­tækið hef­ur þróað.

„Um er að ræða eitt af stærri ný­sköp­un­ar­verk­efn­um síðari ára hér á landi en efna­hags­leg áhrif verk­efn­is­ins geta orðið víðtæk fyr­ir Ísland. Verk­efnið styður mjög við lofts­lags­mál, eyk­ur sjálf­bærni og ýtir und­ir græn­ar áhersl­ur og nátt­úru­lega hringrás,“ seg­ir í til­kynn­ingu en aðstand­end­ur Car­bon Ice­land kynntu verk­efnið á blaðamanna­fundi á Grand hót­el í morg­un. 

Vatna­skil fyr­ir Ísland

Hall­grím­ur Óskars­son, stjórn­ar­formaður Car­bon Ice­land, seg­ir verk­efnið fela í sér vatna­skil fyr­ir Ísland að mörgu leyti, ekki bara í lofts­lags­mál­um.

„Við erum að fanga eina millj­ón tonna af kolt­ví­sýr­ingi sem er miklu meira magn en Ísland hef­ur séð til þessa,“ seg­ir Hall­grím­ur í sam­tali við mbl.is og bæt­ir við að fyr­ir­tækið muni einnig nota kolt­ví­sýr­ing­inn sem það bind­ur til að fram­leiða hreint, grænt eldsneyti, til dæm­is fyr­ir skip og önn­ur sam­göngu­tæki. „Það er verið að nota eldsneyti sem krefst þess ekki að það sé tekið jarðefna­eldsneyti úr jörðu,“ seg­ir hann og nefnið að verið sé að end­ur­nýta meng­un­ina. „Það er mun skárra að það sé verið að nota grænt eldsneyti sem skil­ar ekki meiru út í and­rúms­loftið.“

Einnig verður not­ast við grænt CO2-grun­nefni til að byggja upp öfl­uga mat­væla­fram­leiðslu, að sögn Hall­gríms, sem gæti opnað á alls kyns iðnað hér­lend­is tengd­an út­flutn­ingi, meðal ann­ars á græn­meti.

Hann seg­ir Ísland vera eitt af fyrstu lönd­un­um í heim­in­um til að nýta sér þessa tækni. Fyrsta loft­hreinsi­verið var sett upp í Kan­ada en Banda­ríkja­menn og Bret­ar eru einnig byrjaðir á sams­kon­ar verk­efni og Ísland.

Aðlagað að ís­lensk­um aðstæðum

Fram kem­ur í til­kynn­ingu að í byrj­un árs hafi Car­bon Ice­land ehf.  náð sam­komu­lagi við kanadíska há­tæknifyr­ir­tækið Car­bon Eng­ineer­ing sem hef­ur þróað og fengið einka­leyfi á öfl­ugri aðferð til að hreinsa mikið magn af CO2 beint úr and­rúms­lofti. DAC-aðferðin (Direct Air Capt­ure) hef­ur verið í þróun og próf­un­um hjá þeim í Kan­ada í yfir 10 ár en upp­hafsmaður aðferðafræðinn­ar er Dav­id Keith, pró­fess­or í eðlis­fræði og um­hverf­is­vís­ind­um við Har­vard-há­skóla.

„Car­bon Ice­land hef­ur unnið að því und­an­far­in miss­eri að aðlaga tækni og aðferðarfræði Car­bon Eng­ineer­ing að ís­lensk­um aðstæðum og hef­ur sú aðlög­un snú­ist um það að nota ein­göngu hreina græna raf­orku í starf­semi loft­hreinsi­vers­ins. End­an­legri út­færslu varðandi orku­mál er ekki að fullu lokið og verður greint frá þeim niður­stöðum síðar. Viðræður hafa staðið yfir við sveit­ar­fé­lagið Norðurþing sem miða að því að starf­semi Car­bon Ice­land verði staðsett á vist­væn­um iðngarði á Bakka, við Húsa­vík,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Kost­ar um 140 millj­arða króna

Áætlað er að fram­kvæmd­in kosti um 140 millj­arða króna og eru þá all­ar þrjár vinnslu­ein­ing­arn­ar tald­ar með: loft­hreinsi­ver, fram­leiðsla á grænu CO2 og fram­leiðsla á hreinu, grænu eldsneyti. Árleg­ar tekj­ur, þegar starf­sem­in verður kom­in í full­an gang, geta numið allt að 50 til 70 millj­örðum króna, að stærst­um hluta gjald­eyris­tekj­ur, seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Skatt­spor til rík­is og sveit­ar­fé­laga er áætlað um 8 til 10 millj­arðar króna ár­lega. Fyrstu áform fé­lags­ins eru að fjár­magna verk­efnið er­lend­is frá og eru viðræður um það þegar hafn­ar. Fyr­ir­hugað er að byrja að reisa loft­hreinsi­verið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starf­sem­ina.

Á að nýt­ast öllu sam­fé­lag­inu

„Við sem stönd­um að Car­bon Ice­land ehf. fögn­um því mjög að finna hvað marg­ir aðilar hafa haft trú á verk­efn­inu með okk­ur og hafa staðið þétt við fram­vindu þess á und­an­förn­um miss­er­um. Verk­efnið á að nýt­ast sam­fé­lag­inu öllu enda er um að ræða stórt ný­sköp­un­ar­verk­efni, sem get­ur haft mik­il áhrif á lofts­lags­mál Íslands, með græn­ar áhersl­ur þar sem hug­vit er notað til að fanga mikið magn af CO2 úr and­rúms­lofti og umbreyta því í efni til mat­væla­fram­leiðslu og fram­leiðslu á grænu eldsneyti,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá Car­bon Ice­land. 

mbl.is sótt 01/11/2020