ANNA ÞORBJÖRG JÓNASDÓTTIR skrifar á ruv.is 15/06/2021

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að tvær vindmyllur verði reistar í Grímsey í sumar. Þetta er tilraunaverkefni sem er fyrsta skref í átt til þess að Grímseyingar noti eingöngu rafmagn frá grænum orkugjöfum. Í Grímsey kemur öll orka frá díselrafstöðum. Lengi hefur verið rætt um hvernig hægt sé að finna umhverfisvænni leiðir sem einnig væru fjárhagslega hagstæðari, en olíubrennslan er mjög kostnaðarsöm.

Litlar harðgerðar vindmyllur

Í byrjun verða settar upp tvær vindmyllur á eyjunni en markmiðið er að þær verði alls sex. Vindmyllurnar tvær eru þegar komnar til Akureyrar en þegar búið er að ganga frá öllum tilskyldum leyfum verður farið í að koma vindmyllunum upp og gætu þær verið komnar í gagnið síðsumars. Þær eru einfaldar í uppsetningu en þarf þó að steypa undirstöður fyrir þær. Að öðru leyti er rask á umhverfinu lítið. Framkvæmdin er afturkræf og ef verkefnið tekst ekki eins vel og vonast er til er hægt að fjarlægja vindmyllurnar að loknu tilraunaárinu án mikils rasks á svæðinu. Vindmyllurnar eru litlar og er hæsti punktur þeirra frá jörðu tæplega 12 metrar. Nokkurn tíma tók að finna vindmyllur sem hentuðu umhverfinu. Sá búnaður og tækni sem varð fyrir valinu hefur nú þegar verið reyndur víða um heim við aðstæður sem eru sambærilegar og í Grímsey, t.d. í Alaska og Skotlandi.

Tilraunaverkefni

Vindmyllurnar tvær munu framleiða lítið brot af þeirri orku sem Grímseyingar þurfa, eða um 10%.  Markmiðið er að hverfa algjörlega frá því að brenna olíu og nota í staðinn fjölbreyttar leiðir. Guðmundur Haukur Sigurðarson er framkvæmdastjóri Vistorku sem kemur að verkefninu fyrir hönd Fallorku. Fallorka er dótturfyrirtæki Norðurorku og sér um uppsetningu og rekstur vindmyllanna. Guðmundur bendir á að uppsetning þessara tveggja vindmylla sé fyrst og fremst tilraunaverkefni.  „Við ætlum að gefa okkur eitt ár í það að meta bæði áhrif á hvernig veðrið í Grímsey fer með þær og staðsetningin, hvort hún sé gáfuleg og áhrif á fuglalíf og þess háttar.“

Stefnt er að því að þarna verði alla vega sex vindmyllur í framtíðinni. Fyrsta skrefið í allsherjar orkuskiptum Guðmundur segir að þrátt fyrir að vindmyllurnar tvær muni sjá Grímseyingum fyrir mjög litlum hluta orkunnar sem þeir þurfa, sé skynsamlegt að fara svo rólega af stað. „Þetta er flókið, þetta er áhættusamt, þetta er kostnaðarsamt þannig að menn vilja stíga varlega til jarðar. Ef þetta gengur ekki upp í fyrstu tilraun er gott að vera ekki með of mikið undir,“ segir hann.

Framtíðarsýnin er að nota fleiri umhverfisvæna orkugjafa til að framleiða rafmagn í Grímsey. Þegar hefur verið reynt að brenna lífdísilolíu og hefur hún reynst vel. „Sömuleiðis er stefnan á að setja upp sólarsellur sem eru jafnstórar í afli og vindmyllurnar. Þannig að þetta verður eins konar orkuframleiðslukeppni á milli þeirra,“ segir Guðmundur. Þessu tengt er einnig stefnt að því að setja upp eina litla Icewind-vindmyllu sem er framleidd í Reykjavík auk þess að setja upp rafhlöðupakka úr tjónuðum rafbílum.

Í sátt við umhverfið

Í umræðunni um vindmyllur eru raddir um neikvæð áhrif þeirra á fuglalíf háværar. Guðmundur segir að náttúruvernd hafi verið tekin inn í reikninginn þegar staðsetning vindmyllanna var ákveðin. Staður hafi verið valinn þar sem ekki eru margir fuglar. Þegar eru á svæðinu mjög stór fjarskiptamöstur. Vindmyllurnar eru einnig það litlar og standa þétt sem ætti að koma í veg fyrir að fuglar lendi í þeim.  Verkefnið er tilraunaverkefni og tilgangurinn einmitt að skoða hver áhrif þeirra eru á lífríkið sem og hvernig þær reynast sem orkugjafar.

ruv.is sótt 15/06/2021