Breska ríkisútvarpið birti í dag ítarlega umfjöllun um íslenska verkefnið CarbFix sem þykir einstakt á heimsvísu.
Kolefnisbindingaraðgerðin CarbFix felst í grófum dráttum í því að koltvíoxíð (CO2) er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500 til 800 metra dýpi í basaltjarðlög þar sem koltvíoxíð binst varanlega í berggrunninum í formi steinda.
Síðasta sumar undirrituðu stjórnvöld, stóriðjan og Orkuveita Reykjavíkur viljayfirlýsingu um kolefnishreinsun og -bindingu á Íslandi. Í yfirlýsingunni er CarbFix aðferðin í brennidepli, en við undirritunina stakk forsætisráðherra upp á orðinu „gaströll“ yfir aðferðina.
Í frétt BBC kemur fram að aðferðin hafi verið notuð til að kolefnisjafna Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 með góðum árangri. Jafnvel þó að Íslands sé fámennt land séu tækifæri í CarbFix aðferðinni fyrir fjölmennari ríki með stærra kolefnisspor.
Í umfjöllunin kemur einnig fram að aðferðin krefjist mikillar vatnsnotkunar. Rætt er við Eddu Aradóttur, sem stýrir dótturfélagi OR um CarbFix, sem segir að aðferðin geti þrátt fyrir það virkað vel í ríkjum þar sem aðgengi að vatni er takmarkaðra en hérlendis, þar sem hægt sé að endurnýta vatnið í ferlinu.
mbl.is 18/06/2020