Þrír nemendur við Tækniskólann unnu til verðlauna hjá Landvernd fyrir myndband um kolefnisspor samfélagsmiðla og streymisveita. Þeir segja þetta mikið vandamál sem fáir séu meðvitaðir um, enda mengunin ekki sýnileg.

Axel, Hálfdán og Sölvi eru framtíðarfólk í kvikmyndagerð. fréttablaðið/valli

Þrír sextán ára nemendur við Tækniskólann, Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíasson og Sölvi Bjartur Ingólfsson, eru sigurvegarar keppninnar Ungt umhverfisfréttafólk sem Landvernd stendur fyrir. Er það fyrir myndbandið Mengun með miðlum sem þeir bjuggu til í skólanum um kolefnisspor samfélagsmiðla og streymisveita.

Piltarnir, sem allir eru á fyrsta ári á vísinda- og tæknibraut, bjuggu myndbandið til á aðeins tveimur vikum sem lokaverkefni annar.

„Ég fékk hugmyndina að því að rannsaka mengun af völdum samfélagsmiðla og streymisveita eftir að ég hlustaði á hlaðvarp þar sem þetta var rætt,“ segir Axel. „Þetta er að verða stærra og stærra vandamál eftir því sem notkun netsins eykst. Samkvæmt okkar heimildum eru fyrirtækin þó að gera sinn hlut til að reyna að minnka sporið.“

Í myndbandinu, sem er um 12 mínútur að lengd og má nálgast á Youtube, koma fram ýmsar sláandi staðreyndir og tölur um orkunotkun vegna samfélagsmiðla. Í hvert sinn sem fólk opnar smáforrit, setur læk við mynd, streymir myndbandi eða hleður upp ljósmyndum, er notuð orka. Gögnin eru geymd í orkufrekum gagnaverum, sem oft eru neðanjarðar og þurfa mikla loftkælingu.

Piltarnir taka nokkur dæmi af losuninni, mældri í metratonnum, en hver bíll losar að meðaltali 4,6 metratonn á ári. Facebook, sem 26 prósent jarðarbúa nota að staðaldri, losaði 718 þúsund metratonn árið 2016. Á Snapchat eru send 3 milljarðar myndbanda á dag, 0,1 grömm hvert, sem gerir því 300 metratonn.

Instagram og Twitter eru líka tekin fyrir, en það sé þó lítið miðað við streymisveitur eins og Netflix og Youtube. Nefna þeir sem dæmi að við að njóta lagsins Despacito, sem kom út árið 2017, notaði heimurinn meiri orku en Afríkuríkin Síerra Leóne, Sómalía, Tjad og Mið-afríkulýðveldið nota á einu ári.

Piltarnir gefa einnig ráð um hvernig best sé að minnka notkunina, svo sem með því að slökkva á autoplay-möguleikum, ekki vera áskrifandi að ruslpósti og nota fremur WiFi- en 4G-tengingar.

„Mestu skiptir að fólk sé meðvitað um þetta vandamál og hugsi um leiðir til að minnka það,“ segir Axel. „Til dæmis að nota miðlana minna og hlaða ekki inn hlutum að óþörfu.“ Piltarnir gera sér þó fyllilega grein fyrir að samfélagsmiðlar hverfa ekki á næstunni, þeir séu hluti af nútímanum og til margra hluta nytsamlegir. Til dæmis til að fræða fólk um umhverfismál.

frettabladid.is sótt 31/08/2020