Stórmerkilegt tilraunaverkefni er í gangi í Rangárvallasýslu, þar sem verið er að meðhöndla lífrænan úrgang á sérstakan og mjög áhugaverðan hátt. Að þessu verkefni stendur Jarðgerðarfélagið, sem Björk Brynjarsdóttir frumkvöðull stofnaði, í samstarfi við Rangárvallasýslu og Landgræðsluna.

Það verður mjög spennandi að fylgjast með hvernig verkefnið þróast, því við þessa meðferð á lífrænum úrgangi losnar sáralítið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmasloftið.

Jarðgerðarfélagið hefur hafið tilraunaverkefni á heimsvísu í samstarfi við sorpstöðvar Rangárvallasýslu og Landgræðsluna. Verkefnið snýst um að kanna hvort hægt sé að jarðgera lífrænan heimilsúrgang sem safnað er frá heimilum í sýslunni með svokallaðri bokashi aðferð.

Súrkál fyrir jarðveginn

Þetta er í fyrsta sinn sem bokashi-aðferðin er notuð við að meðhöndla lífrænan úrgang frá sveitarfélagi af þessari stærðargráðu, segir Björk Brynjarsdóttir, stofnandi Jarðgerðarfélagsins. Áður hafi aðferðin gefist vel í heimajarðgerð hjá einstaklingum og í landbúnaði. 

Bokashi aðferðin er upprunnin í Japan og snýst um að láta lífærnar úrgang gerjast með því að blanda hann góðgerlum og geyma lofttæmdan í sex vikur. Þannig hlýst lágmarks útblástur af endurvinnslunni og verðmætur og næringarríkur jarðvegur skapast í kjölfarið á tiltölulega skömmum tíma. Bakteríublandan samanstendur af mjólkursýrugerlum, ljóstillífunarbakteríum, gersveppum, ígulgerlum og öðrum bakteríum. 

Vildu bregðast við loftslagsbreytingum í nærumhverfinu

Um er að ræða tilraunaverkefni. „Okkur fannst mikilvægt að fara út og byrja sjálfar að gera eitthvað,“ segir Björk, en verkefnið hlaut styrk hjá Atvinnumálum kvenna. Mikið sé talað um loftslagsmál í stóra samhenginu, „en okkur langaði að gera eitthvað sjálfar og læra af því.“ Þó væri ábyrgðin rík líka hjá sveitarfélögum og hinu opinbera í sorpvinnslu. Jarðgerðarfélagið hóf því samstarf við Landgræðsluna sem benti þeim á að hafa samband við Rangárvallasýslu þar sem þar væri þegar verið að sérsafna lífrænum úrgangi. 

Nánast engar gróðurhúsalofttegundir verða til við gerjun

Jarðgerðarfélagið notast við fiskikör til að tryggja loftfirrðar aðstæður til gerjunarinnar. Venjulega þegar úrgangur er settur í loftfirrðar aðstæður verður til metangas, það sé eitt af því sem geri meðhöndlun á lífrænum úrgangi erfiða fyrir umhverfið.

Björk segir að það sem sé sérstakt við bokashi-ferlið sé að það sé fljótlegt og að nánast engar gróðurhúsalofttegundir verði til. Þegar gerlablandan er sett út í kæfir hún virkni metanógena sem búa til metanið sem og sýkla- og sjúkdómsvalda

Björk Brynjarsdóttir, stofnandi Jarðgerðarfélagsins og Julia Miriam Brenner, jarðvegsfræðingur.

Annað hvort auðlind eða mengunarvaldur

Áskorun sem verkefnið mætir er að úrgangurinn er aðeins byrjaður að rotna á þeim tveimur vikum sem honum er safnað saman. Mögulega þurfi að setja meira af bakteríublöndu út í til að tryggja yfirtökuskilyrði fyrir þær. Björk segir spennandi að mæla jarðveginn að gerjun lokinni og að komast að því hvort moltan verði örugg og hvernig maís pokar brotni niður. Í kjölfarið verður kannað í í samstarfi við Landgræðsluna hvort hægt verði að nýta úrganginn á svæðinu í Rangárvallasýslu. 

Björk segir að íbúar hafi flokkað vel í sýslunni, lítið af ólífrænu rusli hafi fundist í úrganginum  miðað við það 1,2 tonn af úrgangi sem var meðhöndlað á föstudaginn. Vonar Björk að í framtíðinni verði hægt að nýta jarðveginn á staðbundinn hátt þannig að flutningskostnaður minnki og útblásturinn með.

Verkefni Jarðgerðarsjóðsins hlaut einnig 4.994.400 úr Loftslagssjóði í júní til að sinna fræðslu um jarðgerð fyrir einstaklinga.

ruv.is sótt 09/07/2020