Forseti Íslands tók í dag á móti fyrstu álstönginni sem framleidd er með byltingarkenndri íslenskri nýjung. Íslenska fyrirtækið Arctus Metals ehf. hefur í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands unnið að þróun álframleiðsluferils sem gefur frá sér súrefni í stað koltvísýrings. Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta. Þar sem forskautin taka ekki þátt íefnahvarfinu eru þau sögð vera óvirk. Helsti kosturinn við þessa nýju framleiðsluaðferð er sá að enginn koltvísýringur myndast í framleiðsluferlinu, eingöngu ál og súrefni. Ál með þessari nýju aðferð hefur þegar verið framleitt á tilraunastofu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og þar með staðfest framleiðsluferilinn. Verkefnið hefur frá 2016 notið rannsóknarstyrks fráTækniþróunarsjóði.

„Við erum búin að leysa allar helstu vísindalegu áskoranirnar eins og réttu efnin í bakskaut og forskaut, sem tærast ekki íraflausninni og leiða vel straum. Við höfum þróað heppilega samsetningu raflausnar sem leysir upp súrálið við 800 gráður í ál og súrefni. Eftir standa verkfræðilegar áskoranir við að skala upp framleiðsluker í fulla stærð“,  segir Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og stofnandi Arctus Metals ehf.

Starfsfólk Arctus Metal ehf og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

Í því skyni hafa Arctus og Nýsköpunarmiðstöð undirritað samstarfssamning við eitt af stærstu álfyrirtækjum Evrópu, TrimetAluminium, um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum Trimets í Þýskalandi. Leiðarljós verkefnisins er að að breyta öllum þeirra álverum í vistvænni framleiðslu. Fáist íslenskt fjármagn að verkefninu í formi styrkja eða fjárfestinga, verður hönnun og framleiðsla á kerjum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi.

Jón Hjaltalín segir að á Íslandi sé framleitt umhverfisvænsta ál í heimi vegna endurnýjanlegra orkugjafa. Þrátt fyrir það losiíslensku álverin um þriðjung alls koltvísýrings í landinu þar sem þau nota kolaskaut. 

„Íslensk álver gefa frá sér um 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi á ári. Ef öll álverin okkar tækju upp þessa nýju tækni myndum við minnka losun koltvísýrings á Íslandi um 30% og uppfylla þannig alþjóðlegar skuldbindingar okkar og gott betur en það. Álver á stærð við Ísal í Straumsvík mundi þannig með nýrri aðferð Arctus framleiða súrefni á borð við 500 ferkílómetra skóg.“

Jón Hjaltalín þakkar Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þá sérstaklega efnaverkfræðingunum Guðmundi Gunnarssyni og Guðbjörgu Óskarsdóttur árangurinn sem náðst hefur. Þau hafa unnið að þessari þróun, auk fleiri sérfræðinga miðstöðvarinnar og að sögn Jóns hefur aðkoma þeirra skipt sköpum um að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika. 

,,Þetta samstarf sýnir nauðsyn þess að íslensk fyrirtæki með brautryðjandi viðskiptahugmyndir hafi aðgang að sérfræðingum rannsóknarstofnunar á borð við  Nýsköpunarmiðstöð til að leysa flóknar tæknilegar áskoranir. Aðkoma slíkra sérfræðinga og aðgangur að tækjabúnaði eins og rafeindasmásjá, frumgerðasmíði og tilraunastofu er alger forsenda fyrir hátækninýsköpun af þessu tagi. Ég vona þess vegna að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði starfandi áfram eftir áramót í einhverri mynd. Annars eru miklar líkur á að íslenskir hugvitsmenn neyðist til þess leita til útlanda með hátæknihugmyndir.“

Nýsöpunarmiðstöð Íslands sótt 22/06/2020