Landgræðslan fylgist nú með gasuppstreymi úr endurheimtu votlendi á nokkrum stöðum á landinu. Tilgangurinn er að mæla loftslagsávinning af endurheimt en fullyrt er að stór hluti losunar af mannavöldum hér á landi komi úr framræstu votlendi.

Votlendi geyma mikið af kolefnisforða jarðar. Þau voru víða þurrkuð upp með skurðum til að rækta tún en þá hefst í jarðveginum loftháð rotnun sem losar koldíoxíð. Vorið 2018 tóku Landgræðslan, Fjarðabyggð og Alcoa Fjarðaráls höndum saman um að endurheimta votlendi í Hólmum og á Kollaleiru í Reyðarfirði með því að moka ofan í skurði. 

Nú tveimur árum seinna hittum við á Rúnar Inga Hjartarson, héraðsfulltrúa Landgræðslunnar á Austurlandi. Hann fer um þessi gömlu tún sem nú eru aftur að breytast í mýri. Hann hefur með sér mæli sem er svo næmur á koldíoxíð og hann rýkur upp ef andað er á hann.  „Það sem ég sé er í raun og veru hversu mikið koldíoxíð kemur upp úr jörðinni og því meira vatn sem er í jarðveginum því minna útstreymi koldíoxíðs er út í andrúmsloftið. Því rakara; því minna gas kemur í þennan hólk sem ég er með hérna. Mælingin ein og sér segir kannski ekki svo mikið en breytingin á milli þess sem var áður en að við unnum hér og svo eftir er það sem skiptir máli,“ segir Rúnar Ingi.

Losunin er mjög breytileg eftir stöðum, árstíma og jafnvel tíma dags. Upphafsmælingar í Reyðarfirði sýndu að losun þar var nálægt meðaltalinu – um 20 tonn á hektara. Nú þegar jarðvegurinn blotnar losnar minna koldíoxíð en í staðinn eykst losun á metani sem reyndar er 25 sinnum verri gróðurhúsalofttegund. Magn metans er hins vegar hverfandi svo ávinningurinn við endurheimtina er samt sem áður ótvíræður. Í Reyðarfirði er einungis fylgst með koldíoxíði en á öðrum stöðum á landinu er jafnframt mæld metanlosun. Niðurstöður ættu að liggja fyrir síðar á árinu en þær nýtast til að meta losun af mannavöldum og árangur aðgerða á Íslandi. „Þá þurfum við í raun og veru að vita hvað við erum að ná miklum árangri, hvað við þurfum að gera mikið líka, og hvað við getum gert mikið með þessari aðferð. Þess vegna þurfum við að afla betri upplýsinga um það,“ segir Rúnar Ingi Hjartarson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Austurlandi.

Horfa á frétt

ruv.is sótt 16/07/2020