Sveitarfélög í Evrópu hafa áhyggjur af mögulegu bakslagi í loftslagsmálum vegna COVID-19 segir Óttar Freyr Gíslason, forstöðumaður Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ótti við smit gæti t.d. fælt fólk frá almenningsamgöngum. Hjá Evrópusamtökum sveitarfélaga velti menn fyrir sér hvort nú sé tækifæri til að snúa við blaðinu.  

Fjarfundir vegna pestarinnar

Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélaga sem er aðalsamstarfsvettvangur þeirra í ríkjum Evrópu. Evrópusamtökin hafa hist á fjarfundum meðal annars til að fara yfir möguleg áhrif pestarinnar á aðgerðir og markmið Evrópusambandsins í loftslagsmálum. 

„Það var einmitt verið að velta svona hlutum upp og því bakslagi sem geti átt sér stað. Ríkisstjórnir haldi núna að sér höndum vegna fjármögnunar loftslagsaðgerða af því það þarf að veita peningum eðlilega líka í aðra hluti og vernda hina og þessa grunnþjónustu.“  

Pestin fælir frá almenningssamgöngum

Annað dæmi sé tveggja metra reglan sem getur fælt fólk frá almenningssamgöngum og upp í einkabílinn. Troðið sé í neðanjarðarlestirnar á háannatímum til dæmis í Brussel og engar líkur á að hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð.   

„Hvert verður peningunum veitt?  Það þarf að fjárfesta náttúrlega að þessari uppbyggingu sem snýr að sjálfbærri þróun og loftslagsaðgerðum og svo þetta, hver verður tilfinning fólks gagnvart stöðum þar sem er mikið samneyti og fólk situr þétt saman og slíkt.“

Tími tækifæra runninn upp

Evrópsku sveitarfélögin hafi líka rætt að mögulega sé núna tími breytinga. Viðbrögð við faraldrinum hafi sýnt hvað hægt er að gera þegar viljinn er fyrir hendi.    

„Þannig að líka er ákveðið tækifæri núna því ef við tökum loftslagsmálin sem dæmi, við erum öll sammála um að það þarf að gera eitthvað. Það hefur svolítið skort á viljann og svona að setja mikinn trukk í þetta en það sýnir sig að þegar viljinn er fyrir hendi þá er hægt að gera ótrúlegustu hluti.“

Óttar tekur sem dæmi að heimavinna hafi gengið vel í Reykjavík meðan á faraldrinum stóð. Hann veltir fyrir sér hvaða áhrif það hefði á mengun í borginni ef framvegis myndu allir, sem gætu, vinna heima einn dag í viku.  

„Hvaða áhrif bara í tölum á magni á bílum og þá mengun hefði það  t.d. í Reykjavík? Ég veit ekki hvort einhver er að velta þessu upp og spá í þetta vonandi hjá Reykjavíkurborg.“

Óttar Freyr hefur skrifað um sjálfbært samfélag í kjölfar COVID-19 á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga

ruv.is 25/05/2020