Jóhann Bjarni Kolbeinsson skrifar 25/04/2021 á ruv.is
Örplast er að finna í Vatnajökli, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Þetta er í fyrsta sinn sem staðfesting hefur fengist á því að örplast sé í íslenskum jökli. Líklegt er talið að örplast sé einnig að finna í öllum öðrum jöklum hér á landi.
Það voru vísindamenn við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Gautaborg og Veðurstofu Íslands sem unnu rannsóknina í sameiningu. Fyrstu niðurstöður hennar voru nýlega birtar í vísindaritinu Sustainability.
„Helstu niðurstöður voru þær að við fundum örplast í jöklinum, sem hafði ekki verið staðfest áður. Við höfðum séð vísbendingar erlendis frá að menn hefðu verið að finna örplast í Ölpunum en það hafði ekki verið gert hér á landi áður,“ segir Einar Jón Ásbjörnsson, lektor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, og einn þeirra sem stóðu að rannsókninni.
Er þetta mikið af örplasti?
„Við erum ekki búin að magnsetja það. Fyrstu drögin að þessari rannsókn voru bara að staðfesta tilurð örplasts í jöklinum,“ segir Einar.
Kemst hugsanlega í hringrásina
Vísindamennirnir greindu örplastagnir í snjókjörnum sem safnað var á afskekktum og óspilltum stað á Vatnajökli. Einar segir að næst á dagskrá sé að kanna hvernig örplastið berst í jökulinn.
Er möguleiki á að þetta sé uppgufun og að það komi með regnvatni?
„Það gæti gert það, það gæti komið frá sjónum. Menn hafa verið að skoða hvort örplast úr sjónum geti komist upp í hringrásina, og það er framtíðarrannsókn,“ segir Einar.
Frumniðurstöður sambærilegrar rannsóknar í Hofsjökli benda til þess að örplast sé einnig að finna þar.
Þannig að ef það er örplast í Hofsjökli og Vatnajökli, er þá ekki líklegt að það sé örplast í öllum íslenskum jöklum?
„Jú það má gera fastlega ráð fyrir því,“ segir Einar.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum verður rannsakað hvernig plastagnirnar hafa áhrif á ljósnæmi íssins og byggingu hans, og hvort þær geti mögulega haft áhrif á bráðnun jökla.
Það er sem sagt möguleiki að örplast í jöklum geti flýtt fyrir bráðnun þeirra?
„Flýtt eða hægt. Það er ómögulegt að segja núna,“ segir Einar.
ruv.is sótt 26/04/2021