Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands segir að skriðuföllin á Seyðisfirði fyrir jól séu mikið viðvörunarmerki. Skriðuföllin megi rekja til veðurfarsbreytinga. Minna frost í fjöllum sé líklega að hafa áhrif á stöðugleika fjallshlíða.

Sérfræðingar Veðurstofunnar bjuggust ekki við skriðu af þeirri stærðargráðu sem féll á Seyðisfirði 18. desember. Skriðan var 190 metra breið og 435 metra löng frá efsta brotsári. Flekinn sem fór af stað var allt að 17 metrar að þykkt. Enn er hætta á skriðum úr brotsárinu, stór fleki sem ekki féll fram er nú vaktaður sérstaklega.

„Þetta er náttúrulega mjög mikið viðvörunarmerki fyrir okkur að við þurfum að skoða og rannsaka betur hvað er að gerast í íslenskri náttúru. Þá kannski með tilliti til þess hvort það séu veðurfarsbreytingar, sem eru staðfestar, að þær séu að hafa áhrif á stöðugleika fjallshlíða,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands.

Úrkomumet var slegið á Seyðisfirði dagana fyrir stóru skriðuna. „Þetta er líka að gerast í desember. það er margt þarna sem er óvenjulegt.“

Er hægt að tengja fleiri skriðuföll við veðurfarsbreytingar? „Við teljum að svo sé,“ svarar Þorsteinn og nefnir sem dæmi skriðuna í fjallinu Móafellshyrnu í Fljótum árið 2012, Árnesfjalli á Ströndum 2014 og Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði í október. „Þessar skriður eru að sýna okkur það að frost í fjöllum er að minnka, sífreri er að gefa undan. Það kallar á vangaveltur um það hvort að stöðugleiki fjallshlíða sé að breytast og hlíðar sem við höfum áður talið öruggar að þær geti verið óöruggar,“ segir hann.

ruv.is sótt 15/01/2021