Þingvallavatn gæti misst tærleika sinn ef styrkur köfnunarefnis heldur áfram að aukast í vatninu. Rannsóknir sýna að vegna mengunar finnst köfnunarefni í vatninu í auknum mæli.

Gagnsæi vatnsins gæti minnkað

Fjallað er um efnabúskap Þingvallavatns í þemahefti Náttúrufræðingsins um vatnið, en það er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni sem verður 100 ára gamall 18. júní.  

Eydís Salome Eiríksdóttir, jarðefnafræðingur og Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu rannsóknina. Niðurstöðurnar sýna að mælingar sem gerðar voru árið 1975 og bornar hafa verið saman við nýjar mælingar sýna að breytingar hafa orðið á styrk köfnunarefnisins í vatninu. Eydís segir að styrkur köfnunarefnist í lindarvatni sem streymir í þingvallavatn hafi aukist  Ef styrkur þess aukist fjölgar þörungum sem lifa í vatninu. 
 
„Og það getur leitt til þess að það getur orðið minna gegnsæi í vatninu. Og það í rauninni hefur gerst að það er lítils háttar aukning frá 1975 til dagsins í dag – virðist vera samkvæmt þessum gögnum.“

Vaxandi styrkur köfnunarefnis áhyggjuefni

Þingvallavatn sé sérstakt því tiltölulega lítið sé af köfnunarefni í vatninu.  „Og þar af leiðandi höfum við töluverðar áhyggjur af því ef að það verður meiri aukning á köfnunarefni þá getur það leitt til þess að ásýnd vatnsins breytist. Nú er það mjög tært en aukin frumframleiðni gæti leitt til þess að það yrði ekki alveg eins gegnsætt og við þekkjum það í dag.“

Alþjóðlegar reglur hafa skilað árangri

Mengunin komi t.d. úr fráveitu, landbúnaði og bílaumferð en einnig með loftstraumum til landsins frá útlöndum. 
Alþjóðlegar reglur voru settar á áttunda áratugnum um takmörkun á losun brennisteinssambanda út í andrúmsloftið vegna súrs regns. 
 
„Og við sjáum það mjög glögglega í þessum efnagögnum úr ­Þingvallavatni að það hefur lækkað brennisteinsstyrkurinn. Og það er hægt að gera svona  reglugerðir og takmarka losun á þessum efnum og það greinilega skilar sér.“ 

ruv.is sótt 22/06/2020