Ljósmynd: Vísir/Vilhelm

Eva Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Podium hvetur stjórnendur til að taka stærri skref í loftlagsmálum og nýta sömu aðferðir og hafa verið viðhafðar til að bregðast við kórónufaraldrinum. „Við tókumst á við Covid með aðferðum áfallastjórnunar að leiðarljósi. Er ekki komið að því að takast á við loftslagsvandann á sama hátt og gera samfélagsábyrgð hátt undir höfði í stefnunni?“ spyr Eva. 

Eva segir ákveðna hættu á því að fyrirtæki setji markmið um loftlagsmál til hliðar nú, þegar erfiðir tímar steðja að. 

„Það má þó ekki gleyma því að það að taka samfélagslega ábyrgð getur líka falið í sér uppbyggingu á betra fyrirtæki en að sama skapi hagræðingu fyrir fyrirtæki til framtíðar,“ segir Eva. Að hennar sögn felur samfélagsleg ábyrgð í sér ábyrgð á umhverfisþáttum, félagslegum, stjórnunarlegum og efnahagslegum þáttum.

Eva er sérfræðingur í stefnumótun með samfélagsábyrgð og innleiðingu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur leitt ýmiss verkefni fyrir fyrirtæki og sveitarfélög á því sviði og segir að með öllum breytingum felist tækifæri og það eigi ekkert síður við nú.

Covid -19 færði okkur breytta heimsmynd og lækkandi kolefnisspor með minni samgöngum og meiri fjarvinnu.

Við getum valið í hvernig samfélagi við viljum búa til framtíðar og það samfélag þarf ekki að vera eins og hið fyrra,“ segir Eva.

Rekstrarlegur ávinningur

Eva segir rekstrarlegan ávinning felast í því að innleiða markmið um samfélagslega ábyrgð og takast á við loftlagsvandann. Sem dæmi nefnir hún nýlega rannsókn frá Umhverfisstofnun sem sýndi að hver Íslendingur sóar 90 kílóum af mat á ári. Hluti af þessari sóun er frá fyrirtækjum.

Þá segir hún aldamótakynslóðina mjög meðvitaða um stöðuna en þetta sé sá hópur sem fyrirtæki munu þurfa að keppa um athygli frá. „Þessi hópur er mjög meðvitaður um loftslagsmál og vill frekar skipta við ábyrg fyrirtæki. Það er því ekki lengur „good to have” að vera samfélagslega ábyrgur heldur fjárhagslega bráðnauðsynlegt,” segir Eva.

Í ímyndarmálum skipti þetta einnig miklu máli en þar hefur það sýnt sig að fyrirtæki sem eru sannanlega samfélagslega ábyrg og miðla þeim upplýsingum mælast best. Þetta hefur áhrif á bæði neytendur og fjármagn.

Ímynd hefur svo sannarlega áhrif á fjárhagslegan árangur og það getur að sama skapi haft áhrif á hlutabréf”

segir Eva og bætir við „Trendið leitar í átt að ábyrgum fjárfestingum í heiminum og fyrirtæki sem ekki standa sig verða í framtíðinni flokkuð sem síðri fjárfestingarkostir. Fjármagn stýrir gríðarlega mörgu og við sem erum neytendur eða stýrum fyrirtækjum höfum val um við hverja við verslum. Þess vegna er ábyrg innkaupastefna mjög mikilvæg.” 

Að hennar mati mun þetta á endanum skilja á milli hver lifir og hver ekki. „Neytendur hafa val og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum vegnar betur fjárhagslega og fólk, sérstaklega unga fólkið, vill frekar vinna hjá þeim.“

visir.is 28/04/2020