Síðastliðinn vetur bauðst ungu fólki að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar. Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk er nýtt af nálinni hjá Landvernd og er unnið í nánu samstarfi við 10 framhaldsskóla á landinu. Eftir farsælt prufuár í verkefninu er komið að uppskeru. Hér má sjá sigurverkefnin og umsagnir dómnefndar.

Dómnefndir
Dómnefndina skipuðu Snærós Sindradóttir, fjölmiðlakona, Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri og Ragnhildur Þrastardóttir, blaðamaður.

Auk dómnefndar veita Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta verðlaun fyrir flokkinn Val unga fólksins.

Vegleg verðlaun voru í boði fyrir vinningsverkefnin. Meðal verðlauna voru rafskúta, peningaverðlaun og gjafakort. 

Fyrsta sætið hrepptu nemendur í Tækniskólanum, þeir Axel Bjarkar Sigurjónsson 16 ára, Hálfdán Helgi Matthíasson 16 ára og Sölvi Bjartur Ingólfsson 16 ára. 

Umsögn dómnefndar
Verkefnið fellur algjörlega að titli keppninnar, ungt umhverfisfréttafólk, þar sem aðstandendur verkefnisins fjölluðu á fræðandi hátt, að heiðarleika og sanngirni um afkima umhverfisvandans og þessa knýjandi kröfu á að samfélagsmiðlar verði knúnir áfram af grænni orku. Það er augljóst að aðstandendur verkefnisins lögðu mikið í að búa til heildstæðan fréttaskýringarþátt á þessa hlið umhverfismála sem fáir þekkja.

Ljósmyndin Contratulations, humanity lenti í öðru sæti eftir Ásdísi Rós Þórisdóttur, 22 ára nemanda í Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Umsögn dómnefndar
Myndin segir meira en þúsund orð og hittir okkur neytendur fyrir, sem eru fastir í viðjum umbúðarsamfélagsins. Myndin er líka sterk gagnrýni á stórfyrirtæki og hvernig þau standa fyrir umhverfisskaðandi iðnaði um allan heim. Listaverk sem að fær fólk sannarlega til að hugsa.

Þriðja sætið hlaut Instagramsíðan Hellisbúarnir gerð af Ástrósu Anítu Óskarsdóttur 19 ára, Hörpu Sigríði Óskarsdóttur 21 árs, Mateja Nikoletic 16 ára og Selmu Mujkic 18 ára nemendum í í Framhaldsskóla í Austur-Skaftafellssýslu.

Umsögn dómnefndar
Bráðnun jökla ógnar ungum kynslóðum í dag og stefnir heimkynnum okkar og lífsháttum í hættu. Hópurinn setti verkefnið fram á mjög aðgengilegan hátt fyrir ungt fólk sem var til fyrirmyndar og var í senn fræðandi og lifandi.

Ungt umhverfisfréttafólk komið til að vera

Um leið og við óskum öllum vinningshöfum til hamingju með vel unnin verkefni þá þakkar Landvernd öllum þátttakendum fyrir frábær verkefni en alls bárust um 40 verkefni í keppnina frá 10 framhaldsskólum víða um land. 

Landvernd hefur umsjón með verkefninu Ungt umhverfisfréttafólk. Þegar fram líða stundir er stefnt á að bjóða framhaldsskólum, efri bekkjum grunnskóla nemendum á háskólastigi að taka þátt. Framhaldsskólar geta enn skráð sig til leiks fyrir næstu önnSkráning.

landvernd.is sótt 29/09/2020