Á næstu tíu árum ætla Reykja­vík­ur­borg og tengd­ir aðilar að fjár­festa 300 millj­örðum króna í að byggja upp græna borg. Mestu fjár­fest­ing­arn­ar verða á næstu þrem­ur árum.

Þetta kom fram í máli Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra á kynn­ing­ar­fundi um græna planið og fjár­fest­ingu Reykja­vík­ur og fyr­ir­tækja borg­ar­inn­ar.

Dag­ur sagði borg­ina vera að þró­ast í græna átt og að þörf sé á sókn­aráætl­un þess efn­is. Hann sagði áskor­an­ir vera fyr­ir hendi, bæði vegna sam­drátt­ar í lands­fram­leiðslu og at­vinnu­leys­is, en auk þess um­hverf­is­leg­ar áskor­an­ir m.a. í tengsl­um við lofts­lags­breyt­ing­ar.

Hann sagði borg­ina vilja flýta fjár­fest­ing­um eins mikið og hægt er á næstu árum og bætti við að framtíðar­sýn borg­ar­inn­ar væri kol­efn­is­laust borg­ar­sam­fé­lag sem væri blóm­legt og heil­brigt. Verið væri að fjár­festa í vax­andi borg, öfl­ugri upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis og græn­um innviðum sam­gangna.

Sömu­leiðis nefndi Dag­ur að gríðarleg fjár­fest­ing væri fyr­ir­huguð í sta­f­rænni umbreyt­ingu á þjón­ustu borg­ar­inn­ar.

1.000 íbúðir í bygg­ingu á hverju ári

Sem dæmi um mestu fjár­fest­ing­ar borg­ar­inn­ar á næstu mánuðum sagði hann að 320 millj­ón­ir króna færu í innviði í Úlfarsár­dal, 250 millj­ón­ir í innviði fyr­ir íbúðabyggð á Ártúns­höfða, auk þess sem hann nefndi m.a. Bryggju­hverfið og Voga­byggð.

Hann sagði borg­ina sjá fyr­ir sér að a.m.k. 1.000 íbúðir fari í bygg­ingu á hverju ári og að um 3.000 íbúðir verði í bygg­ingu á hverj­um tíma næstu árin í Reykja­vík.

Til stend­ur að leggja 2,7 millj­arða króna í sam­göngu­innviði í borg­inni á þessu ári. Þar af fara 600 millj­ón­ir króna í sam­göngusátt­mála. End­ur­nýjuð hjól­reiðaætl­un verður lögð fram. „Við ætl­um að verða hjól­reiðaborg sem er framúrsk­ar­andi á alþjóðleg­an mæli­kv­arða,“ sagði borg­ar­stjór­inn.

Mikla­braut og Sæ­braut í stokk

Hann benti á að borg­ar­lín­an verði fyr­ir­ferðar­mik­il þegar fyrstu áfang­arn­ir þar fara af stað. „Við mun­um líka sjá ótrú­lega já­kvæða umbreyt­ingu borg­ar­inn­ar með að Mikla­braut og Sæ­braut fari í stokk,“ sagði hann og nefndi að um­ferðin verði ró­legri á yf­ir­borðinu. Hjóla- og göngu­stíg­ar verði betri og að göt­ur þró­ist í borg­ar­göt­ur með grænna yf­ir­bragði og aðstöðu fyr­ir alla sam­göngu­máta.

Dag­ur minnt­ist á fjölda upp­bygg­ing­ar­svæða í Vatns­mýr­inni í tengsl­um við at­vinnu­lóðir. Lang­stærsta svæðið væri Land­spít­al­inn en Vís­indag­arðasvæði Há­skóla Íslands væri einnig mjög stórt. Einnig er von­ast eft­ir meiri upp­bygg­ingu á svæði Há­skól­ans í Reykja­vík á næst­unni.

Einnig nefndi hann kvik­myndaþorpið í Gufu­nesi. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hvað við erum hratt að þróa kvik­myndaþorp,“ sagði hann og bætti við að fleiri fyr­ir­tæki en RVK Studi­os væru kom­in þangað. Fleiri lóðir til um­sókn­ar verði aug­lýst­ar á næstu vik­um.

Útivist­ar­svæði á Hólms­heiði

Borg­in ætl­ar jafn­framt að setja 10 millj­arða króna á þrem­ur árum í sta­f­ræna umbreyt­ingu, þ.e. upp­færslu upp­lýs­inga­kerfa og breytta þjón­ustu. „Við erum að tala um ein­föld­un á því að nálg­ast borg­ina,“ sagði hann.

Lýs­ing í borg­inni mun taka stakka­skipt­um með LED-væðingu götu­ljósa og nýtt úti­vist­ar­svæði á Hólms­heiði verður opnað. Það kall­ast Aust­ur­heiðar. „Þetta er kannski nýja Heiðmörk­in okk­ar,“ sagði hann og nefndi einnig að þrír millj­arðar króna verði sett­ir í innviði grunn­skóla árið 2021. Meðal ann­ars eru fyr­ir­hugaðir nýir grunn­skól­ar í Skerjaf­irði, Voga­byggð og á Ártúns­höfða.

mbl.is sótt 12/02/2120