Sam­kvæmt töl­fræði Um­hverf­is­stofn­unn­ar um úr­gang á Íslandi voru 88.147 tonn af líf­brjót­an­leg­um úr­gangi urðuð árið 2017. Þetta sama ár féllu til 225.000 tonn af heim­il­iss­orpi og er líf­rænn úr­gang­ur því veru­lega hátt hlut­fall af því sorpi sem fer til urðunar með gassöfn­un­inni sem því fylg­ir.

mbl.is

Tæp 40% sveit­ar­fé­laga virðast vera með putt­ann á púls­in­um hvað lífrænan úrgang varðar, því 28 sveit­ar­fé­lög hið minnsta af 72 láta nú þegar jarðgera líf­ræn­an úr­gang.

Nú virðist strærsta sveitarfélag landsins vera að taka við sér og ætlar að bjóða höfuðborgarbúum upp á að flokka lífrænan úrgang í sér tunnur strax á næsta ári.

Dagur B. Eggerstsson borgarstjóri greindi frá því í Kastljósi Rúv þann 11/06 2020, að um áramótin verði valið á milli tveggja leiða sem íbúar hafa prófað í tilraunaskyni í tveimur borgarhlutum.

Þar sagði hann að hvergi annars staðar á landinu falli jafn mikið til af úrgangi og á höfuðborgarsvæðinu. Hann telur það helstu ástæðu fyrir því að önnur sveitarfélög hafi orðið fyrri til að flokka lífrænan úrgang.

Árið 2014, varaði Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur við því að Gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, myndi ekki virka sem skyldi, ef sveitarfélögin hæfu ekki sérsöfnun lífræns úrgangs. Stefán sagði í sama Kastljósþætti að tæknin byggi á að úrganginum sé safnað sérstaklega sem lífrænu sorpi en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóði ekki upp á þann möguleika. Það sé mikil hætta á að við núverandi ástand sé á að of mikið af eiturefnum, plasti og öðrum efnum berist í moltuna og þannig verði hún ónothæf.

Dagur sagði í Kastljósi að orð Stefáns hefðu komið á óvart enda ætti hann að vita betur hafandi verið borginni til ráðgjafar. „Hann hefur verið ráðgjafi hjá okkur allavega í tveimur skorpum; annars vegar í kringum 2014 og 2015 og hins vegar í tengslum við viðauka við svokallaða aðgerðaáætlun í úrgangsmálum sem við réðumst í í fyrra.“  

Borgin hafi beint því til Sorpu árið 2015 að mikilvægt væri að í þarfagreiningunni fyrir Gas- og jarðgerðarstöðina yrði gert ráð fyrir móttöku á hreinu lífrænu sorpi.

„Sorpa var svolítið stíf á þeirri meiningu að það væri nóg að taka við blönduðum en borgin hefur í raun verið kannski róttækari í gegnum tíðina að flokkun hafi gildi af tveimur ástæðum,“ segir Dagur. Önnur ástæðan sé að verðmæti felist í sorpinu og hin að með því að flokka geri fólk sér betur grein fyrir umfangi umbúða. 

ruv.is

Hægt að skipta móttökustöðinni upp

Dagur benti á það að hægt sé að skipta móttökustöðinni í Gufunesi upp þannig að hreinn lífrænn úrgangur sé sér og blandaður sé á öðru svæði innan móttökustöðvarinnar.  

Aðgerðaáætlun borgarinnar 2015-2020 gerir ráð fyrir því að þegar GAJA opnar verði farið að sækja lífrænt sorp heim til fólks. Það sé hins vegar flókið að hirða hreinan lífrænan úrgang. Höfuðborgarsvæðið sé með hagkvæma sorphirðu og því hafi verið verið ákveðið að gera tilraun fyrst með tvær útfærslur. 

Tilraunaverkefni hófst á Kjalarnesi í október í fyrra með því að Kjalnesingar notuðu tvískiptar tunnur, í haust verði síðan prófað að vera með sér tunnu, brúna tunnu, í öðru hverfi innan borgarinnar.

„Og um áramótin ætlum við okkur að velja á milli þessara aðferða til þess að geta sótt lífrænt heim til fólks um mitt næsta ár þegar við sjáum fyrir okkur að Gas-og jarðgerðarstöðin verður komin í fulla vinnslu.“ 

ruv.is

Stór hluti eða 90% af sorpi sem fellur til á höfuðborgarsvæðinu kemur frá fyrirtækjum og því skipti höfuðmáli að fá atvinnulífið til að flokka. 

Dagur segir að það verði tímamót í næstu viku þegar Gas- og jarðgerðarstöðin verður tekin í notkun. Fyrir umhverfið jafnist það á við að fjarlægja 40 þúsund bíla af götunum. 

ruv.is

Þú getur samt byrjað strax

Þrátt fyrir að verkefni Reykjavíkurborgar hefjist ekki fyrr en um mitt næsta ár, eru til ýmsar lausnir sem margir gætu nýtt sér strax. Þarna er ég að tala um heima jarðgerð eða svokallað moltugerð, sem gæti hentað töluverðum fjölda borgarbúa þó það sé ekki allra.

Mikill áhugi virðist hafa vaknað fyrir heima jarðgerð og á vafri mínu á netinu, rakst ég meðal annars á facebook síðu áhugafólks um moltugerð. Á þessari síðu geta meðlimir fengið svör við allskonar spurningum sem vakna og þar miðlar fólk ráðum og reynslu af moltugerð, sem getur verið gagnlegt fyrir þá sem eru nýgræðingar í faginu og hina líka.

Kjartan Valgarðsson fer yfir heimajarðgerð ásamt Terra.

Á internetinu er hægt að finna mikið af upplýsingum og leiðbeiningum um það hvernig best er að bera sig að við moltugerð í heimahúsum eða görðum. Þar er einnig að finna fjölbreyttar lausnir varðandi tunnur eða kassa sem hægt er að nota, því er um að gera að prófa ef þú hefur áhuga og aðstæður til þess.

mbl.is
ruv.is
sótt 14/06/2020