Mjög lít­ill hluti Íslend­inga tel­ur að þeirra eig­in hegðun geti haft mik­il áhrif í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Hins veg­ar telja flest­ir að hegðun al­menn­ings á heimsvísu geti haft áhrif.

Þetta eru niður­stöður nýrr­ar um­hver­f­is­könn­un­ar Gallup, en sam­kvæmt þeim tel­ur aðeins um einn af hverj­um fimm Íslend­ing­um að eig­in hegðun geti haft mjög eða frek­ar mik­il áhrif á að að sporna við hlýn­un jarðar á meðan 63,8% telja hegðun al­menn­ings á heimsvísu geta það.

Niður­stöður könn­un­ar­inn­ar voru kynnt­ar á lofts­lags­ráðstefnu Gallup í Hörpu í dag, en í er­indi sínu á ráðstefn­unni hafði um­hverf­is­ráðherra meðal ann­ars orð á því að hve áhuga­vert það væri að fólk efaðist um áhrifa­mátt eig­in gjörða, en gerði sér þó grein fyr­ir sam­taka­mætti fjöld­ans. 

Karl­ar seg­ist vita meira en breyti síður

Lofts­lags­breyt­ing­ar eru í öðru sæti yfir það hvað Íslend­ing­ar telja helstu áskor­an­ir sem Ísland stend­ur frammi fyr­ir í dag, en þar er heil­brigðis­kerfið efst á blaði. Lofts­lags­mál­in eru fólki þó ofar í huga nú en í fyrri könn­un­um Gallup, því í síðustu könn­un voru um­hverf­is­mál­in í þriðja sæti á eft­ir og í þeirri þarsíðustu voru þau í því fimmta.

Þá hef­ur fjöldi þeirra sem telja sig vita mjög eða frek­ar mikið um lofts­lags­breyt­ing­ar hækkað lít­il­lega frá síðustu könn­un, en Ólaf­ur El­ín­ar­son, sviðsstjóri markaðsrann­sókna hjá Gallup á Íslandi, sem kynnti niður­stöðurn­ar fyr­ir ráðstefnu­gest­um, sagði það at­hygl­is­vert að karl­ar teldu sig al­mennt vita meira um lofts­lags­breyt­ing­ar þótt þeir væru síður lík­leg­ir til að breyta hegðun sinni í sam­ræmi við þá vitn­eskju sína en kon­ur.

Í könn­un­inni var jafn­framt spurt hvort þátt­tak­end­ur teldu að lofts­lags­breyt­ing­ar væru af völd­um nátt­úr­unn­ar, af manna­völd­um eða hvort tveggja, en sam­kvæmt niður­stöðum fjölg­ar þeim milli ára sem telja að þær séu aðallega af nátt­úr­unn­ar völd­um úr 4,8% í síðustu könn­un í 7,5%. Þá sagði nærri fjórðung­ur þátt­tak­enda, eða 22,9%, allt of mikið mál gert úr áhrif­um manna á lofts­lags­breyt­ing­ar.

Ánægðast­ir með eig­in viðleitni 

Flest­ir eru ánægðast­ir með sína eig­in viðleitni til þess að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, eða 76% svar­enda, og þar af eru 13,7% mjög ánægð og 4,3% að öllu leyti ánægð. Hið sama er ekki að segja um ánægju með viðleitni stjórn­valda og sveit­ar­fé­lega, en í báðum til­vik­um er meiri­hluti þátt­tak­enda óánægður, þó að fleiri séu ánægðir með viðleitni sveit­ar­fé­laga en stjórn­valda.

Meiri­hluti þátt­tak­enda hef­ur áhyggj­ur af þeim af­leiðing­um sem lofts­lags­breyt­ing­ar geta haft á þá og fjöl­skyld­ur þeirra og jafn­framt hugs­ar meiri­hluti þeirra mikið um eig­in áhrif á lofts­lags­breyt­ing­ar. Þá hafði meiri­hluti þátt­tak­enda breytt hegðun sinni nokkuð eða mikið til að lág­marka áhrif sín á lofts­lags­breyt­ing­ar og um­hverfi á síðustu 12 mánuðum. 

Al­geng­ustu breyt­ing­ar á hegðun fólks voru flokk­un sorps, minnk­un á plast­notk­un og notk­un á einnota umbúðum, og loks minnk­un mat­araf­ganga. Af öðrum breyt­ing­um á hegðun sem spurt var um höfðu færri en helm­ing­ur þátt­tak­enda gert. Sem dæmi má nefna að 24% höfðu dregið úr fjölda flug­ferða, 17% minnkað neyslu dýra­af­urða og 5% höfðu skipt í raf­magns­bíl.

mbl.is 31/03/2020