Bandarísk-belgískur efnafræðingur að nafni Leo Beakland fann upp plastið fyrir 113 árum. Hann gaf þessu nýja, handhæga og mótandi efni nafnið plastic, en orðstofninn er gríska orðið plastikós, sem þýðir að móta. 

Það er óhætt að segja að það séu fáir hlutir sem móta tilveru okkar jafn áþreifanlega og plastið. Það er alls staðar, hvert sem litið er og líka á þeim stöðum sem það ætti alls ekki að vera eins og t.d. í jarðvegi og hafinu.

Meira var framleitt af plasti á síðasta áratug en öll 103 árin þar á undan. Á síðasta ári voru það 400 milljón rúmmetrar og plastframleiðsla í heiminum hefur fjórfaldast síðan um aldamót. Það tekur plast mjög langan tíma að brotna niður eða allt að 500 ár. Því gæti maður spurt sig, hvar endar þetta? 

Vandamálið við plastið er hversu gott efni það er til margvíslegra nota og má segja að í sumum tilvikum sé það nauðsynlegt. Plast er létt og mótandi og því auðvelt að búa til allt mögulegt úr því en vandamálið er að nær helmingur af plastframleiðslu fer í að búa til einnota vörur. Margt af því vörur sem hægt væri að sleppa því að búa til eða nota önnur umhverfisvænni efni.

Það er margt sem mælir með því að einstaklingar og fyrirtæki minnki notkun sína á plasti eins og kostur til þess að vernda náttúruna og ekki síst sjóinn sem er víða orðin mjög mengaður af örplasti. Örplast nefnast plastagnir sem eru minni en 5 mm að þvermáli og er einn af helstu ógnvöldum í nútíma samfélagi.

Langar þig til að minnka plastnotkun en ert ekki viss um hvar á að byrja? – Hér á eftir koma nokkur gagnleg ráð til að hjálpa þér að byrja.

1. Notaðu margnota kaffibolla þegar þú kaupir þér kaffi til að taka með þér, eða afþakkaðu plastlokið sem oft fylgir einnota pappabollanum. Það er til ótrúlegt úrval af ferðabollum og allir eittu að eiga eins og einn.

2. Hættu að kaupa vatn það þarf enginn að kaupa vatn á Íslandi, fylltu bara á margnota flöskuna þína. Ef þú ert á ferðalagi erlendis, þar sem gæði vatnsins eru ekki góð þá er hægt að kaupa flöskur (sjá hér) sem eru með sérstaka síu, þannig að þú þarft aldrei aftur að kaupa vatn í plastflösku. Álbrúsar eða glerflöskur eru að miklu leyti endurunnin, því skaltu velja það framyfir plastið.  

3. Ef þú ferð á skyndibitastaði þar sem boðið er upp á plasthnifapör, skaltu afþakka þau. Sniðugt er að vera alltaf með sín eigin margnota ferðahnífapör með sér.

4. Hættu að nota plastströr, keyptu þér heldur endurnýtanleg rör úr bambus, silíkoni eða málmi og hafðu það alltaf með þér ef þú vilt nota rör í drykkinn þinn.

5. Það er óþarfi að setja grænmeti og ávexti í plastpoka í matvöruversluninni en ef þú vilt nota poka veldu þá umhverfisvænni kosti eins og t.d. endurunna poka úr náttúrulegu efni. Hægt er að slá tvær flugur í einu höggi það er að vera umhverfisvænn og styrkja gott málefni með því að kaupa grænmetis- og ávaxtapoka hjá Krabbameinsfélaginu.

6. Vissir þú jafnvel að tepokar innihalda plast? Flestir tepokar nota pólýprópýlen sem er ekki niðurbrjótanlegt eða endurvinnanlegt og endar sem örplast í vatninu. Hér getur þú lesið meira um það. Skiptu yfir í laus telauf, eða finndu vörumerki af tepokum sem innihelda ekki plast.

7. Ef þú verslar mikið á netinu, reyndu að kaupa í lausu og helst allt frá sömu verslun, þetta mun draga úr plastumbúðum. Ef þú átt möguleika á að skipta við í vefverslun sem er umhverfisvæn og notar frekar pappír en plast þá velur þú það.

8. Reyndu að muna eftir því að hafa alltaf margnota innkaupapoka meðferðis. Ef þú af einhverjum ástæðum þarft að kaupa plastpoka, notaðu hann þá áfram enda eru þeir til margra hluta nytsamlegir ef þú er á annað borð kominn með plastpokann inn á heimilið.

9. Skiptu yfir á sápustykki á baðherberginu í stað fljótandi sápu i einnota plastflösku. Ef þér hugnast það ekki, þá er hægt að búa til sína eigin fljótandi sápu og fylla á pumpuflöskur. Hér má sjá myndband. Þú getur meira að segja fengið sjampó, hárnæringu, raksturs froðu og fleira í stykki núna. Venjulega er stykkjunum vafið í pappír, sem gerir þennan valkost alveg plastlausan.

10. Veldu bambustannbursta næst þegar þú verslar tannbursta og veldu tannþráð úr bambus eða silki í stað plasttannþráðs.

11. Skiptu úr einnota rakvélum úr plasti yfir í eina sem þarf aðeins þarf að skipta út rakvélablöðunum. Rafmagnsrakvél getur líka verið valkostur sem vert er að skoða.

12. Vissir þú að tíðatappar og dömubindi innihalda mikið af plasti. Í þessari grein Ladies, plastic free periods are the future er ágætis umfjöllun um málefnið. Skiptu yfir í umhverfisvænni valkosti eins og tíðabikar eða margnota dömubindi

13. Snyrtipinnar eða eyrnapinnar fást nú án plasts! Það er hægt að fá þá með bambus eða pappapinna á milli bómullarhnoðranna.

14. Vertu viss um að snyrtivörurnar þínar innihaldi ekki örplast því það getur aldrei verið gott fyrir okkur að setja örplast á eða í líkamann, sem betur fer hefur orðið mikil vakning á þessu sviði. Þú átt að geta treyst því að ef varan er umhverfismerkt þá er ekki örplast í henni. Hér er ágætis viðtal um þetta málefni þar sem farið er yfir hvað þú getur notað til að hjálp þér við að velja plastlausar snyrtivörur.

15. Förum aftur til fortíðar ef svo má segja, þegar kemur að bleyjum fyrir smábörnin. Taubleyjur eru miklu vistvænni en þessar einnota svo ég tali nú ekki um úrvalið sem er í boði nú til dags. Það eru ekki bara þessar gömlu bleyjur heldur hægt að velja um alls konar handhægar bleyjubuxur sem barninu líður vel í og eru jafngóðar eða betri en þessar einnota.

16. Plast getur verið gott við varðveislu matvæla í eldhúsinu en það eru til aðrir kostir sem vert er að skoða. Prófaðu þig áfram með margnota ílát út gleri, stáli, silíkoni og vaxstykki sem hægt er að nota bæði til að pakka inn í og breiða yfir matvæli.

Þetta eru aðeins nokkrar hugmyndir til að hjálpa þér á ferðalagi þínu við að lifa plastlausu lífi. Það sem ég komst að við þessa samantekt er að úrvalið af umhverfisvænum vörum hefur stóraukist á Íslandi. Verslunum sem bjóða eingöngu upp á umhverfisvænar vörur hefur stórfjölgað á undanförnum árum auk þess sem stórmarkaðir bjóða í auknum mæli upp á þennan valkost. Allt sem þú þarft að gera er að vera vakandi fyrir því hvað fer í þína innkaupakörfu. Gandi þér vel.

Ef þú ert með vísbendingu eða ráð, láttu okkur þá vita hér í athugasemdum fyrir neðan.