Birtist fyrst í frettabladid.is 11/04/2021
Dæmi eru um að skógræktaráform einstaklinga og félagasamtaka tefjist vegna skipulagshindrana sveitarfélaga. Skógræktarstjóri Skógræktar ríkisins segir þetta „verulegt áhyggjuefni“ sem stafi fyrst og fremst af skrifræði einstaka sveitarstjórna.
réttablaðið greindi nýlega frá töfum á fyrirhugaðri skógrækt í landi Skálholtskirkjustaðar vegna skipulagshindrunar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar synjaði verkefninu um framkvæmdaleyfi á grundvelli þess að breyta þyrfti deiliskipulagi svæðisins en áformað hafði verið að rækta svokallaðan loftslagsskóg til kolefnisjöfnunar í samstarfi við Kolviðarsjóð.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri Skógræktarinnar, segir þetta ekki vera einsdæmi en hann segir sambærileg mál koma upp nokkrum sinnum á ári:
„Það er verulegt áhyggjuefni, þegar við erum að reyna að setja okkur markmið í skógrækt, til dæmis að binda miklu meira kolefni frá andrúmsloftinu, að það séu þá svona hlutir sem letja mjög áhuga fólks á að rækta skóg. Það er hægt að drepa hann algjörlega niður og við vitum um dæmi þess að fólk hafi gefist upp og hætt við,“ segir Þröstur.
Hafa ekki efni á að borga hálfa milljón í startgjald
Guðmundur Einar Skagalín Traustason er formaður Skógræktarfélags Álftafjarðar sem áformað hafði að sækja um framkvæmdaleyfi til skógræktar á 6 hektara landi í Múlaþingi. Guðmundur sendi inn óformlega fyrirspurn til sveitarstjórnarinnar í febrúar á þessu ári til að spyrjast fyrir um mögulegan kostnað við meðferð málsins. Landið sem um ræðir er skilgreint sem landbúnaðarland og fékk Guðmundur þau svör að nauðsynlegt væri að fara út í breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins áður en hægt væri að hefja skógrækt á landinu.
Skipulagsfulltrúar Múlaþings gáfu Guðmundi þau svör að kostnaðurinn við slíkar skipulagsbreytingar myndi nema tæpum 500.000 krónum en Guðmundur segir skógræktarfélagið ekki hafa efni á slíku, þar sem um sé að ræða fámennt félag áhugamanna:
„Við erum fimmtán manns í þessu félagi, við getum ekki slegið út hálfri milljón í startgjald. Við eigum eftir að gera girðingu, sem við náttúrlega kostum sjálf, og við getum ekki farið að borga fyrst hálfa milljón, svo að girða og svo að planta. Þetta gengur ekki upp,“ segir Guðmundur.
Í pattstöðu milli sveitarstjórnar og Minjastofnunar
Jakob K. Kristjánsson, landeigandi á Hóli í Hvammssveit, sótti um framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Dalabyggðar til skógræktar ásamt tveimur öðrum landeigendum haustið 2019. Umsóknirnar voru samþykktar í mars 2020 en voru þó bundnar þeim skilyrðum að fyrir þyrfti að liggja umsögn Minjastofnunar Íslands um fornminjar og samþykki eigenda aðliggjandi jarða.
Þegar Jakob óskaði eftir umsögn Minjastofnunar fékk hann hins vegar það svar að ekki væri hægt að veita hana þar sem Dalabyggð hefði ekki lokið fornleifaskráningu í tengslum við aðalskipulag sveitarfélagsins. Honum var því gefinn sá kostur að láta sjálfur framkvæma fornleifaskráningu á eigin kostnað en einu aðilarnir sem geta framkvæmt slíkar skráningar eru sjálfstætt starfandi fornleifafræðingar og getur kostnaðurinn við slíkt hlaupið á hundruðum þúsunda og allt upp í nokkrar milljónir króna.
„Þá ertu kominn með svona Catch-22 dæmi,“ segir Jakob og bætir við að krafan um að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir áður en framkvæmdaleyfi sé veitt sé hvergi að finna í lögum.
„Þar með ertu kominn í svona stöðu þar sem að sveitarstjórn afgreiðir ekki málið vegna þess að þeir segja að það sé skilyrði að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir, Minjastofnun segir að sveitarstjórn sé ekki búin að ljúka skráningu fornminja í sínu landi, þess vegna geti þau ekki veitt umsögn og skógarbóndinn situr fastur þarna á milli,“ segir Jakob.
Kærðu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
Jakob og hinir landeigendurnir ákváðu að fara þá leið að kæra málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í lok mars 2020. Úrskurður var gefinn út í október sama ár og samkvæmt honum var ekki lagastoð til að krefjast samþykkis eigenda annarra jarða og var það skilyrði því fellt úr gildi. Skilyrðið um að umsögn Minjastofnunar skyldi liggja fyrir var þó talið lögmætt og látið standa en úrskurðarnefndin mat það svo að skilyrðið hafi þegar verið uppfyllt með bréfum sem Minjastofnun sendi varðandi umræddar jarðir í apríl 2020.
Í úrskurðinum var jafnframt tekið fram að „af hálfu sveitarfélagsins var samþykkt framkvæmdaleyfanna ekki bundin skilyrði um efni umsagnanna heldur einungis að þeirra yrði aflað.“
Jakob segir úrskurðinn vera fordæmisgefandi og það helsta sem megi túlka úr honum sé það að Minjastofnun hafi ekki lagaheimild til að stöðva skógrækt með því að láta ábyrgðina á fornleifaskráningu í hendur landeigenda. Sveitarstjórnir geti beðið um umsögn Minjastofnunar áður en þær veiti framkvæmdaleyfi en þær séu ekki skyldugar til þess og efni umsagnanna sé ekki forsenda fyrir leyfisveitingunni.
„Þannig að niðurstaðan er einfaldlega sú að það er engin lagaheimild fyrir hendi til þess að þessi umsögn Minjastofnunar verði skilyrði og því síður er lagaheimild fyrir hendi að skógarbóndi skuli borga fyrir þessa fornminjaskráningu,“ segir Jakob.
Í kjölfar úrskurðarins fékk Jakob hið langþráða framkvæmdaleyfi og fær hann úthlutað fyrstu plöntunum í vor og getur þá loks hafið hina eiginlegu skógrækt. Þó er ljóst að þessi málaferli hafa sett stórt strik í reikninginn og tafið framkvæmdina um hátt í tvö ár.
Geðþótti á ekki heima í opinberri stjórnsýslu
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri Skógræktarinnar, segir sveitarfélög hafa völd til að hreinlega koma í veg fyrir skógrækt:
„Það er búið að koma hlutum þannig fyrir að sveitarfélög hafa skipulagsvaldið um skipulag lands og þau hafa völd til að bókstaflega koma í veg fyrir skógrækt í sveitarfélaginu. Sveitarfélög geta tekið þá stefnu að beita svona hlutum sem er heimild fyrir í lögum, vissulega, til að koma í veg fyrir að fólk vilji fara í skógrækt og það er með því að gera til dæmis framkvæmdaleyfisferlið óþarflega erfitt, það er með því að túlka skipulagslög óþarflega strangt,“ segir Þröstur.
Skrifræði komi í sjálfu sér ekki í veg fyrir skógrækt en það geti hæglega orðið til þess að hún tefjist eða fæli frá tilvonandi skógarbændur eins og gerðist í máli Guðmundar Einars. Þröstur segir þó vilja vera hjá Skógræktinni til að leysa þau ágreiningsmál sem koma upp á milli skógarbænda og sveitarstjórna.
„Skipulagsvaldið þarf að vera byggt á lögum, geðþótti á ekki heima í opinberri stjórnsýslu, það er það sem þetta snýst um. Fólk sem er ráðið til starfa hefur ýmsar skoðanir, þá er ég að tala um skipulagsfulltrúa, en þegar fólk í stjórnsýslu lætur sínar persónulegu skoðanir hafa áhrif, þá er um geðþótta að ræða og það á ekki heima í opinberri stjórnsýslu,“ segir Þröstur.
frettabladid.is sótt 11/04/2021