Á vorin er loftið í Sevilla ljúft og ilmar af azahar, appelsínublóminu, en 5,7milljón kílóa af beiskum ávöxtum 48.000 trjáa falla á götur borgarinnar á veturna sem skapa hættu fyrir vegfarendur og höfuðverk fyrir hreinsunardeild borgarinnar.

Spænskir ​​verkfræðingar hafa uppfært gömlu sítrusklisjuna og yfirfært hana yfir í umhverfisvernd – þegar lífið gefur þér appelsínur, búðu til rafmagn. Í Sevilla er byrjað að endunýta mörg tonn af ávöxtum sem falla til jarðar af 48.000 appelsínutrjám borgarinnar. Í stað þess að að þær rotni á götum borgarinnar flestum til ama og óþrifnaðar, mun metanið úr þessum rotnandi appelsínum fljótlega verða að hreinni orku.

Vatnsfyrirtæki í eigu Sevilla borgar, Emasesa, mun hefja þessa vegferð með því að nota 35 tonn af ávöxtum í verksmiðju sem þegar býr til rafmagn úr lífrænum úrgangi. Metanið sem verður tekið úr gerjuðum appelsínum mun knýja rafala fyrir vatnshreinsistöðvar borgarinnar. Ef appelsínugula tilraunin verður árangursrík gætu gamlir ávextir einhvern tíma framleitt meira rafmagn heldur en vatnsfyrirtækin þurfa að nota og því verði til afgangsafl. Vísindamenn greina frá því að fyrstu prófanir sýniram á að 1.000 kíló af appelsínum geti fullnægt rafmagnsþörf fimm heimila í sólarhring. Ef allar appelsínur Sevilla væru notaðar gætu þær framleitt rafmagn fyrir 73.000 heimili.

„Emasesa er nú fyrirmynd á Spáni fyrir sjálfbærni og baráttu gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Juan Espadas Cejas, borgarstjóri Sevilla, á blaðamannafundi við upphaf verkefnisins. „Nýjar fjárfestingar beinast sérstaklega að vatnshreinsistöðvum sem nota næstum 40% af þeirri orku sem þarf til að sjá borginni fyrir neysluvatni og hreinlætisaðstöðu,“ sagði hann. „Þetta verkefni mun hjálpa okkur að ná markmiðum okkar um að draga úr losun, auka sjálfbærni og stuðla að hringlaga hagkerfi.“

„Við vonum að innan tíðar náum við að endurvinna allar appelsínur borgarinnar,“ sagði Benigno López, yfirmaður umhverfissviðs Emasesa, eins og The Guardian greindi frá. „Safinn er ávaxtasykur sem samanstendur af mjög stuttum kolefniskeðjum og því er árangur þessara kolefniskeðja við gerjunina er mjög mikill. Þetta snýst ekki bara um að spara peninga. Appelsínurnar eru vandamál fyrir borgina og við framleiðum verðmæti úr úrgangi. “ López áætlaði að Sevilla þyrfti að fjárfesta fyrir um 250.000 evrum til þess að verkefnið verði að veruleika.

Appelsínurnar eru til prýði meðan þær eru á trjánum en þegar þær falla og merjast undir hjólum bíla verða göturnar klístraðar af safa og svartar af flugum. Þær eru beiskar og eru því ekki borðaðar og þess vegna fer svona fyrir þeim, fjöldi manns starfar við að hreinsa þær upp af götunni til að gera borgarbúum lífið bærilegra.

Spánverjar kynntust appelsínutrjánum fyrir um 1000 árum frá Aröbum en þær eiga uppruna sinn í Asíu. „Tréin hafa fest rætur hér og eru ónæm fyrir mengun og hafa aðlagast svæðinu vel,“ sagði Fernando Mora Figueroa, yfirmaður garðadeildar Sevilla. „Fólk segir að borgin Sevilla sé stærsti appelsínulundur heimsins.“

Það verður því spennandi að fylgjast með því hvernig þessu verkefni vindur fram í náinni framtíð og hvort villtustu draumar Sevilla rætast. Verður Sevilla fyrsta borgin í heiminum til að búa til rafmagn til heimilisnota úr appelsínum?

Heimild:
The Guardian