Þar sem ég sit hér og horfi á lífrænu banana sem ég bar með mér heim úr versluninni í gær, þá fer ég að hugsa um hversu stórt kolefnisspor þeir skilja eftir sig. Það þyrmir hálfpartinn yfir mig því þeir eru líklega komnir alla leið frá Perú sem þýðir að þeir hafa ferðast ansi langt til þess eins að lenda í mínum maga. Það sem meira er að grænmeti og ávextir sem eru fluttir yfir hálfan hnöttinn tapa bæði gæðum og næringargildi á leið sinni til þín. Bananar eru þrátt fyrir það hollir og góðir fyrir alla en eru þeir nauðsynlegir?
Grænmeti og ávextir sem hafa ferðast langar leiðir með flugvélum skilja eftir sig stórt kolefnisspor á meðan kálið sem þú getur ræktað í glugganum þínum, á svölunum eða garðinum er með hverfandi kolefnispor. Fyrir utan umbúðir sem þú sleppur við að bera heim til þín og þarft síðan að farga á viðeigandi hátt og bætir þar með við kolefnissporið þitt. Svo ekki sé minnst á allt það hráefni sem vex villt úti í náttúrunni rétt við bæjardyrnar hjá okkur hvar sem við búum á Íslandi.
Ruv.is er um þessar mundir að sýna frábæra stutta þætti um loftslagsmál í umsjón Sævars Helga Bragasonar. Í þættinum, sem sýndur var síðasta þriðjudagskvöld, fjallaði hann það hvernig við getum ræktað okkar eigið grænmeti og nýtt okkur gæði landsins. Það var mjög athyglisvert að sjá hvað við getum ræktað margt sjálf án þess að vera með heilu akrana undir. Þáttarstjórnandi heimsótti konu sem ræktar allt sitt grænmeti í litlu gróðurhúsi í bakgarðinum og aðra sem ræktar á svölunum sínum, jafnframt ræddi hann við veitingamann sem tínir fjörugrös, hvönn og fleira til að nota í rétti á veitingastaðnum sínum.
Þessi þáttur styrkti mig enn frekar í þeirri trú að við getum gert svo miklu betur hvað varðar sjálfbærni okkar og með því minnkað kolefnissporið okkar, því ákvað ég að kynna mér málið betur.
Mitt eigið grænmeti
Það þarf ekki bara að vera fjarlægur draumur að vera sjálfbær um sitt eigið grænmeti og kartöflur yfir sumartímann að minnsta kosti.
Ef þú býrð í þéttbýli og hefur enga aðstöðu þá bjóða öll stærri bæjarfélög upp á matjurtagarða til leigu. í Reykjavík eru t.d. um 600 matjurtagarðar víðsvegar um borgina sem einstaklingar geta leigt. Þetta er frábært fyrir þá sem hafa ekki aðstöðu eða vilja ekki rækta heima hjá sér, það er líka kostur að geta gengið að tilbúnu beði og þurfa ekki að útbúa slíkt sjálfur því það er jú ákveðið umstang sem hentar kannski ekki öllum.
Áður en þú skellir þér á hnéin og byrjar að gróðursetja er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Hvar ætla ég að rækta? Á svölum, í glugga eða garði?
- Hversu mikið sólarljós er á þeim stað? Það skiptir máli á hvort ræktunarstaður er í norður eða suður varðandi hvað er hægt að rækta og hvað síður.
- Í hverju ætla ég að rækta? Á ég plastbox eða gamla blómapotta sem ég get notað?
- Hvað nota ég mest? Notar þú mintu í þeytinga eða mikið af hvítlauk í matargerð?
- Hvað finnst mér gott að borða? Þetta er augljós en góð spurning enda minni tilgangur að rækta það sem þér finnst ekki gott að borða.
- Gæti ég sparað mér peninga? Matjurtir eru til dæmis dýrar út í búð, því er spurning hvort þú viljir að rækta þær sjálf/ur.
Þegar þú hefur svarað þessum spurningum getur þú hafist handa og tekið næstu skref. Það er mjög auðvelt að forrækta kál, kryddjurtir og alls konar sjálfur í gluggakistunni, það er líka hægt að kaupa forræktaðar plöntur á mörgum gróðrarstöðvum og öruggara fyrir algjöra byrjendur.
Ræktun fyrir byrjendur, grein sem Dagný Gísladóttir skrifaði á nfl.is er full af fróðleik sem gæti komið að gagni við fyrstu skrefin en listinn hér að ofan er fenginn að láni þaðan að mestu óbreyttur.
Tímaritið „Lifum betur – Í boði náttúrunnar“ hefur einnig birt greinar um heimaræktun og gagnleg ráð. sumar þeirra má lesa frítt á netinu en ég mæli alveg með áskrift af þessu flotta tímariti fyrir áhugafólk um umhverfismál.
Ég stend sjálf í þessum framkvæmdum heima hjá mér í mínum pínulitla garði og gluggarnir mínir eru fullir af litlum plöntum sem verða vonandi að grænmeti þegar fram líða stundir. Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað ég hef gaman af þessu stússi. Í öllu tali um núvitund og að róa hugann þá mæli ég heilshugar með því að rækta garðinn sinn, það gefur mér að minnsta kosti stórkostlega hugarró.
Það sem náttúran gefur okkur
Matarbúr náttúrunnar á Íslandi er fjölbreyttara en margan grunar og því vel þess virði að kynna sér það aðeins betur. Þar má nefna ber, sveppi, fjallagrös, hvönn, blóðberg og mjaðjurt en þó er ekki allt upp talið. Þessar íslensku jurtir og fleiri til hafa í gegnum tíðini allt verið notaðar í lækningaskyni, sem krydd í matargerð og til að búa til te.
Náttúrulækningafélag Íslands hefur staðið fyrir fræðslu um nýtingu þessarra náttúruauðlinda auk tínsluferða, sem er spennandi bæði fyrir byrjendur og lengra komna.
Ég mæli eindregið með bókinni „Íslenskar lækningajurtir – notkun þeirra, tínsla og rannsóknir“ eftir Önnu Rósu grasalækni, hafir þú áhuga á að fræðast betur um það sem íslensk náttúra getur fært okkur.
Fjaran er lítið nýttur fjársjóður
Söl og annar sjávar- og fjörugróður hefur líka verið notaður til matargerðar og því alveg þess virði að skella sér í fjöruferð og athuga hvað þú getur fundið í fjörunni þinni.
Guðrún Hallgrímsdóttir, segir í greininni Fjaran – gósenland sem birt var á vef Háskóla Íslands:
„Næstum allt þang og þari í fjörum sem ekki hafa orðið fyrir mengun er ætt og inniheldur öll helstu næringarefnin auk þess sem það er uppspretta fyrir bæði vitamin og steinefni, lífsnauðsynlegar amínósýrur og ómettuðu fitusýrurnar, omega 3 og omega 6 í æskilegum hlutföllum fyrir heilsuna. Það er óhætt að segja að þangið sé gullnáma góðra næringarefna.“
Það er hægt að nota aðföng úr fjörunni í margs konar rétti bæði til bragðbætingar og til að skreyta matinn hvort sem um er að ræða þang eða fjörugróður.
Það er freistandi að kaupa allskonar framandi ávexti og grænmeti í stórmarkaðinum með tilheyrandi kolefnispori og umbúðafargi. Ég hvet þig því til að skoða hvað þú getur gert til að minnka þitt kolefnisspor og taka fyrsta skrefið í átt að sjálfbærni. Ég vona að þessi skrf mín hafi kveikt í einhverjum og þeir drífi sig af stað að rækta og nýta það sem hægt að finna í náttúrunni bæði til sjávar og sveita.
Er ekki kominn tími til að staldra við og líta sér nær?
Heimildir
Skessuhorn
Hvað getum við gert?
Ræktun fyrir byrjendur
Fjaran – gósenland