Ísland stendur verr en mörg ríki Evrópu þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Greint var frá því í gær að Ísland væri í þriðja sæti yfir grænustu lönd álfunnar samkvæmt greiningu breska fjármálafyrirtækisins Nimble Fins. Þrátt fyrir þann árangur sýnir úttektin að Ísland stendur sig næst verst af þeim þrjátíu ríkjum sem úttektin tók til þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.
Samkvæmt greiningunni losa Íslendingar 17,5 tonn gróðurhúsalofttegunda á ári miðað við höfðatölu. Til samanburðar losa Svíar, sem eru efstir á listanum, aðeins 5,4 tonn árlega.
Greiningin tekur til heildarlosunar, að alþjóðaflugi meðtöldu. Losun sem kemur frá flokknum LULUCF, sem nær til landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar, er ekki með í útreikningnum. Rafn Helgason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, bendir á að ef alþjóðaflug er ekki tekið með inn í reikninginn, þá standi bæði Eistland og Lúxemborg verr að vígi en við þegar kemur að losun.
„Skilaboðin eru skýr, við þurfum að draga úr losun frá þeim uppsprettum sem teljast til sameiginlegra efnda samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021 til 2030. Þetta er sú losun sem telst á beinni ábyrgð stjórnvalda,“ segir Rafn.
Samkvæmt greiningu Umhverfisstofnunar er stærstur hluti heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, án LULUCF, af völdum orkulosunar og iðnaðarferla. Vegasamgöngur eru meginuppspretta losunar í flokki orku en fiskiskip koma þar á eftir. Iðnaðarferlar og efnanotkun orsakaði 42 prósent af losun Íslands árið 2018 og í þeim flokki er langstærsti hluti losunar tilkominn vegna málmiðnaðar.
Stjórnvöld vilja ganga lengra en alþjóðlegar skuldbindingar
Í júní kynntu forsætisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, fjármálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nýja útgáfu aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Með henni stefna stjórnvöld að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40 prósent árið 2030 miðað við árið 2005. Stefnt er að því að landið verði kolefnishlutlaust árið 2040.
Aðgerðaráætlunin samanstendur af margvíslegum skrefum sem taka þarf, eða þegar hafa verið tekin, til þess að markmiðunum verði náð. Þessar aðgerðir eru meðal annars orkuskipti í samgöngum, rafvæðing hafna, aukin kolefnisbinding og vistvænir bílaleigubílar.
Að sögn Rafns þurfa Íslendingar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, frá þeim uppsprettum sem teljast til sameiginlegra efnda innan Parísarsáttmálans, um 29% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Líkt og sjá má á myndinni fyrir neðan hefur þróunin frá 2005 verið nokkuð stöðug. Rafn bendir á að áhrifa vegna aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum muni sennilega gæta á komandi árum.
ruv.is sótt 28/07/2020