Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar flutti erindi á umhverfisdegi atvinnulífsins 14. október sl. Hún sagði okkur standa frammi fyrir að draga úr losun, minnka plast í hafinu, breyta samgönguháttum, taka upp grænt og hringrænt hagkerfi, styðja líffræðilega fjölbreytni og vernda víðernin.

„Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“

Framtíðin krefst endurnýjanlegrar orku og að breyta þurfi orkukerfum. Hér á landi er talið að 300 MW þurfi til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og 1200 MW til að ná fullum orkuskiptum.

Kristín Linda fjallaði einnig um tækifæri og áskoranir Íslands. Það verði mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku en að framfarir í nýtingu vind- og sólarorku þrengi að samkeppnisforskoti Íslands. Vindorkan hefur hér áhrif á samkeppnishæfni annarra orkukosta þ.e. vatnsafls og jarðvarma. Það þarf að meta hvar megi nýta vindinn og hvar ekki en til að nýta vindorku er unnt að velja svæði á breiðari grunni en þegar um vatnsafl og jarðvarma er að ræða.

Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025 og Kristín rakti hvernig því marki yrði náð.

Hún sagði fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð bjóða upp á spennandi verkefni við að finna gott jafnvægi náttúruverndar og orkuvinnslu í jaðri þjóðgarðsins.

Að lokum sagði Kristín: „Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“

Hér má sjá erindi Kristínar Lindu í Sjónvarpi atvinnulífsins

sa.is sótt 22/10/2020