Skiptar skoðanir eru á papparörunum sem tekið hafa við af plaströrum á drykkjarfernum sem og á pappa- og tréskeiðum sem komið hafa í stað plastskeiða. Svo virðist sem fólk skiptist í tvo hópa í umræðunni, annars vegar er hópur sem saknar plastsins og hins vegar er hópur sem fagnar breytingunni vegna jákvæðra umhverfislegra áhrifa. Að mati sölustjóra MS liggur vandamálið í því að plast skili sér ekki að öllu leyti í endurvinnslu. Umhverfisstjórnunarfræðingur segir breytinguna ekki raska núverandi neyslumynstri að neinu ráði.
Grétar Þór Sigurðsson skrifar í Kjarnann.is 8. ágúst 2021
Ekki eru allir á eitt sáttir með ný papparör sem komið hafa í stað plaströra á drykkjarfernum og arftakar plastskeiða í skyrdósum og í ísbúðum hafa einnig vakið mismikla lukku upp á síðkastið. Ástæðan fyrir þessari nýbreytni er ný Evróputilskipun sem innleidd var með breytingum á lögum sem tóku gildi í byrjun júlí þar sem kveðið er á um bann við ýmiss konar einnota plastvörum.
Með lagabreytingunni er lagt bann við því að tilteknar plastvörur séu settar á markað, vörur á borð við einnota hnífapör úr plasti, diska úr plasti, hræripinna úr plasti fyrir drykkjarvörur og sogrör úr plasti, nema þau falli undir lög um lækningatæki. Bann við að slíkar vörur séu settar á markað þýðir að framleiðsla á slíkum vörum og innflutningur á þeim er bannaður. Verslunum verður því enn heimilt að selja sínar birgðir af þessum vörum en ljóst er að þegar þær birgðir eru uppurnar þá verða þessar vörur ekki í boði úti í búð.
Það eru ekki bara þessar einnota vörur sem munu hverfa úr hillum búðanna. Þau áhöld sem fylgja matvælum sem við kaupum úti í búð taka breytingum. Líkt og áður segir hverfa plaströrin af drykkjarfernum og papparör koma í staðinn. Þá víkja plastskeiðar fyrir pappa- og tréskeiðum í skyrdósum. Það sama er uppi á teningnum í ísbúðum og á stöðum sem selja safa og svokölluð boozt þar sem pappinn kemur í stað plastsins, svo dæmi séu tekin.
Breytingarnar fara misvel í fólk
Í Facebook-hópnum Matartips! sem telur hátt í 50 þúsund meðlimi hefur fólk skipst á skoðunum um rörin frá því að þau komu fram á sjónarsviðið og svo virðist sem fólk skiptist í tvo hópa í viðbrögðum sínum við breytingunum. Annars vegar þau sem sakna plastsins og segja nýju áhöldin alls ekki jafn góð og þau gömlu. Fólk kvartar yfir því að nýju rörin henti ekki vökva jafn vel og plaströrin, þau mýkist mikið upp og að bragð úr rörunum skili sér í drykkina, þá henti þau alls ekki til þess að drekka þykkari drykki á borð við mjólkurhristing.
Svo eru aðrir sem fagna breytingunum vegna þess að þær muni hafa jákvæð umhverfisleg áhrif, þær dragi úr óþarfa plastnotkun og fólk í þessum Facebook-hópi bendir gjarnan á að ekki sé nauðsynlegt að nota rör til þess að drekka drykki á borð við Kókómjólk og Svala.
Áhuginn á þessum breytingum virðist vera mikill, fjöldi athugasemda við færslur í hópnum sem fjalla um þessar breytingar skipta iðulega tugum, ef ekki hundruðum. Inn á milli má svo finna húmorista sem birta myndir af ónotuðum plastskeiðum og plaströrum með orðunum: „Selst hæstbjóðanda!“
Meðal þeirra sem lagt hafa orð í belg í umræðunni um papparörin er fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason en hann tók þau fyrir á Twitter-síðu sinni í vikunni. Í vinsælli færslu sagði Atli Fannar breytinguna gera lítið í stóra samhenginu og að verið væri að færa ábyrgðina á hamfarahlýnun til fólksins í stað stórfyrirtækja.
Viðbúið að misvel yrði tekið í breytingarnar
Meðal þess sem er undanskilið banni eru matarílát sem ætluð eru undir matvæli til neyslu þar sem matarins er alla jafna neytt beint úr ílátinu og hann tilbúinn til neyslu strax. Þetta á til að mynda við um jógúrt- og skyrdósir og því verða þær enn um sinn úr plasti, þrátt fyrir að plastskeiðinni verði skipt út fyrir pappaskeið.
Vinna stendur yfir hjá Mjólkursamsölunni við það að skipta bæði skeiðum og rörum úr plasti út fyrir pappaáhöld, að sögn Aðalsteins H. Magnússonar sölustjóra. „Við erum að klára gamlar framleiðslur og þetta er í rauninni að gerast þessa dagana og vikurnar. Þannig að það fara í alla nýja framleiðslu hjá okkur papparör á Kókómjólk, Hleðslu og Næringu og það allt saman. Síðan erum við með þessar pappaskeiðar í skyrinu, þannig að þetta er bara í vinnslu.“
Aðalsteinn segir að fyrir fram hafi verið vitað að breytingarnar ættu eftir falla fólki misjafnlega vel. Þau pappaáhöld sem nú fylgja vörum MS voru einfaldlega bestu lausnirnar sem í boði voru. „Við erum líka alveg viss um það að með tímanum þá munu lausnir án plasts verða betri. Menn munu örugglega halda áfram að þróa papparör þannig að þau verði enn þá betri en þau eru í dag og það verður örugglega þróun í einhvers konar pappaskeiðum sem eru betri,“ segir hann.
Spurður að því hvort fyrirtækið sé að leita einhverra annarra leiða til þess að minnka plastnotkun segir Aðalsteinn að þau hvetji fólk til þess að koma plastinu í endurvinnslu. „Það er í rauninni alltaf aðalatriðið ef að allir gætu hirt um plastið og sett það í rétta hringrás þá væri ekkert vandamál. En við erum auðvitað alltaf að skoða með okkar birgjum alls konar lausnir og okkur er enginn akkur í því að vera með plastumbúðir en hingað til hafa þær verið mjög góður miðill til þess að geyma mat og tryggja endingartíma og svoleiðis.“
Aðalsteinn gat hvorki fullyrt um það hversu mikil minnkun yrði á notkun plasts hjá fyrirtækinu eftir breytingarnar, né hversu mikið plast fyrirtækið notaði á hverju ári. Hann ítrekaði að lokum mikilvægi þess að endurvinna efnið. „Plast sem slíkt er ekki endilega slæmt, heldur að fólk hendi því út í náttúruna. Umgengni fólks um plastið er ekki til fyrirmyndar oft og tíðum.“
Breyting sem er ekki til þess fallin að breyta neyslumynstrinu
Kjarninn ræddi einnig við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing um þessa nýju breytingu sem mun minnka framboð á einnota vörum úr plasti. Hann telur breytinguna ekki skipta mikla máli í hinu stóra samhengi. „Þetta er sýnilegt, þetta er eitthvað sem fólk skilur og raskar ekkert rosalega mikið neyslumynstri,“ segir Stefán. „Fólk sættir sig kannski við þetta og þetta lítur fyrir að vera rosa merkilegt en ég held að þetta skili okkur ekkert langt fram á veginn.“
Spurður að því hvort pappi í umbúðanotkun sé mun betri fyrir umhverfið en plast segir Stefán það skipta verulegu máli hvernig það sé reiknað. Hann bendir á að ef horft sé á málið út frá loftslagsmálum þá geti umbúðir og áhöld úr pappa þurft að veri efnismeiri en sambærilegir hlutir úr plasti og þar af leiðandi þyngri og þá tapist eitthvað af ávinningnum í framleiðslu og flutningi.
„Það er pínu vinsælt að ráðast á plastið því við erum að missa þetta út um allt og þetta liggur alls staðar og rekur á fjörur og endar í sjónum og er einhvers staðar á flækingi í þúsund ár því þetta brotnar ekki niður. Ef við gætum lokað fyrir þann straum að tapa þessu út í náttúruna, þá horfir málið öðruvísi við,“ segir Stefán en kostur pappans er sá að hann brotnar niður í náttúrunni ólíkt plastinu.
„Ef þetta væri meðhöndlað eins og siðuðu fólki bæri að gera og þetta færi þá í brennslu til orkuvinnslu þá er það bara millistig fyrir olíuna sem annars væri brennt beint,“ segir Stefán en plast er búið til úr olíuafurðum. „Svo þetta er þyngdar sinnar virði í olíu þegar það er brennt.“
Þessi breyting er ekki til þess fallin að breyta neyslumynstri fólks, nema að litlu leyti, sem er að mati Stefáns stóra vandamálið þegar umhverfismál eru annars vegar. „Með því að skipta út einhverju einu efni fyrir annað sem að er erfitt að fullyrða, án frekari skoðunar og án þess að vita forsendurnar, að það sé betra en það gamla þá ertu bara að auðvelda fólki að halda áfram í sams konar neyslumynstri sem er bara einnota neyslumenning.“