„Ég held að fólk ætti að reyna að temja sér að vera ekki kvíðið heldur fullt eftirvæntingar eftir því að fá að vera þátttakandi í þeirri kynslóð sem breytti,“ segir Elín Hirst, sem kemur ásamt Sævari Helga Bragasyni að gerð nýrrar þáttaraðar um lausnir á loftslagsvandanum.
Sævar Helgi Bragason og Elín Hirst standa að nýju sjónvarpsþáttunum Hvað getum við gert? sem eru sjálfstætt framhald þáttanna Hvað höfum við gert? Í fyrri þáttaröðinni var farið yfir áhrif okkar á loftslagið og það tjón sem hefur orðið af mannavöldum og afleiðingar þess. Í nýju þáttunum er aftur á móti fjallað um fjölbreyttar lausnir við loftslagsvandanum. Lausnirnar eru ólíkar en eiga það allar sameiginlegt að gera lífið á jörðinni enn betra.
Þættirnir hófu göngu sína á RÚV. 1. febrúar og eru aðgengilegir í spilaranum.
„Það er akkúrat svo mikilvægt að fólk missi ekki móðinn,“ segir Elín Hirst í Mannlega þættinum á Rás 1. „Þetta er verkefni sem við verðum að takast á við og það sem er svo fallegt í þessu er að mannkynið hefur tekist á við ótrúlega erfið verkefni í gegnum tíðina. Við höfum verið að takast við eitt verkefni og það er COVID og finna upp bóluefni á einu ári, það lögðust allir á eitt og það er þannig sem við ættum að takast á við loftslagsvandann.“
Hún segir að fólk ætti að temja sér að vera ekki kvíðið yfir vandanum heldur ætti það að vera fullt eftirvæntingar eftir því að fá að vera í þeirri kynslóð sem rétti af leiðina frekar en að fallast hendur.
Sævar Helgi tekur undir það og undirstrikar að fjöldinn skipti máli. „Einn einstaklingur út af fyrir sig hefur lítið að segja en ef massinn gerir það þá breytir það ansi miklu. Það er það sem við þurfum á að halda. Við þurfum að fá kerfisbreytingar í gegn og það gerum við ekki nema með því að fólk viti hvert vandamálið er og trúi því einlæglega með varfærinni bjartsýni að við getum leyst þetta vandamál. Þessar lausnir eiga það sameiginlegt að gera lífið á jörðinni betra. Loftið sem við öndum að okkur verður hreinna, hver vill ekki fá hreinna loft í lungun sín? Vatnið verður heilbrigðara líka, vistkerfin sem sjá okkur fyrir matvælum og koma kannski í veg fyrir að sjúkdómar berist úr dýraríkinu í okkur eins og við þekkjum í dag. Ef við förum betur með spörum við auðlindir, eigum meiri peninga og frítíma. Allar lausnirnar miða að því að hægja pínulítið á okkur en það þarf ekki að vera slæmt fyrir hagkerfið eða lífsgæði heldur þvert á móti auka lífsgæði. Mig langar að stefna þangað.“
Þau segja umfjöllunarefni þáttanna vera margbreytileg. Það kom okkur skemmtilega og þægilega á óvart í raun og veru hvað hefur áunnist mikið síðan við gerðum hina þættina,“ segir Elín. „Við byrjuðum á þeim 2017 og þeir fóru í loftið vorið 2019 og þá fannst okkur lítið vera að gerast í svona lausnamálum á því hvernig við ættum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nú þegar við mætum á svæðið þá er svo mikil gróska og svo mikið að gerast að það er alveg frábært. Í raun og veru eru loftslagsmál orðin öll mál, það er í rauninni ekki til neitt sem heitir loftslagsmál heldur snertir þetta allt sama hvar við berum niður.“
Hvað getum við gert? eru örþættir, um 6-8 mínútur hver, og þar er fjallað um eina lausn á loftslagsvandanum í hverjum þætti. „Við fjöllum til dæmis um rafbílavæðingu, örflæði, landgræðslu og hvernig við getum komið í veg fyrir ofbeit, um raforkukerfi heimsins og vonandi einhvern tímann menntun stúlkna líka, sem er mjög mikilvægt loftslagsmál í leiðinni. Það sem er svo frábært við þetta vandamál, jafnvel þó það sé stundum dimmt yfir því og dómsdagslegt, þá eru lausnirnar svo frábærar og algjörlega tilefni til að vera bjartsýnn. Því það er allur heimurinn núna að færast í þá átt að leysa þetta vandamál í sameiningu.“
Markmið þáttanna er að valdefla fólkið í landinu og í framhaldi af því virkja lýðræðið, segir Elín. „Þannig að það geti tekið þátt í umræðu, myndað sér skoðun, haft hugtökin á hreinu þegar rætt er um þessi mál, gert sig gildandi og svo farið og kosið þá fulltrúa sem það telur að muni vinna að þeim málum sem er þeim hjarta næst.“
ruv.is sótt 02/02/2021