Moltugerð er mjög mikilvæg fyrir hringrásarkerfi náttúrunnar hvort sem það er heima hjá einstaklingum eða hjá fyrirtækjum sem taka slíkt að sér og nýta hana til landgræðslu á örfoka svæðum. Með því að gera moltu í bakgarðinum hjá þér getur þú sparað þér áburðarkaup á matjurtagarðin eða í trjábeðin með því minnkum við kolefnissporið okkar því að spara flutning og framleiðslu á tilbúnum áburði. Við höfum áður fjallað um heimamoltugerð og hér má lesa um það.

Í greininni sem hér kemur er hins vegar verið að fjalla um stórmerkilegt verkefni sem er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og Terra. Greinin ætti svo sannarlega að vera hvatning til okkar allra um að huga að því hvernig við förum með heimilisúrganginn.

Molta er mikið undraefni, magnaður jarðvegsbætir búinn til úr lífrænum úrgangi. Í sumar hófst samstarf Landgræðslunnar og Terra, um notkun moltu til uppgræðslu á örfoka landi í Krýsuvík.

Samstarfsverkefni Landgræðslunnar og Terra um notkun moltu er stutt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

„Þetta er stórt og mikilvægt skref til þess að nýta úrgang betur og innleiða hringrásarhagkerfið,“ segir Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra.

„Við hjá Terra erum stolt og ánægð með samstarfið við Landgræðsluna og Grindvíkinga og ekki síst fyrir þetta framtak umhverfisráðherra.“

Er öll molta góð til landgræðslu?

„Moltan verður að vera ómenguð, laus við plast- og spilliefni. Til þess að geta notað moltu í svona verkefni er grunnforsenda að lífræni úrgangurinn standist kröfur um hreinleika og að vandað sé til verka. Lífrænn úrgangur sem er flokkaður sérstaklega er mjög heppilegur í moltugerð.

Allur lífrænn úrgangur sem við tökum á móti er jarðgerður og öll okkar molta fer í gegnum vottað ferli. Moltan frá Terra hefur fengið viðurkenningu frá Matís og Umhverfisstofnun. Við rekum okkar eigin jarðgerðarstöð og beitum sérstakri hitameðferð og annarri meðhöndlun til þess að búa til úrvals vöru.“

Hefur átt sér stað viðhorfsbreyting? Er fólk að uppgötva moltuna betur og betur?

„Já, algjörlega. Moltan okkar er uppseld í fyrsta sinn. Það hefur aldrei áður gerst. Fólk er að uppgötva að kannski er betra og umhverfisvænna að nota innlenda, græna framleiðslu, í staðinn fyrir innfluttan áburð. Sömuleiðis er frábært að sjá að stjórnvöld og Landgræðslan vilji nota moltu í landgræðslu. Þess vegna er brýnt að framleiða vandaða og góða vöru, að kynna enn betur góðan árangur moltu fyrir mögulega notendur og finna hagkvæmar leiðir til flutnings og dreifingar um land allt.“

Það er oft talað um hringrásarhagkerfi – er þetta hluti af því?

Þetta er hringrásarhagkerfið í framkvæmd! Með þessu verkefni sem við vinnum með Landgræðslunni, erum við að innleiða nýja hugsun og nýtt kerfi um hvernig við umgöngumst úrgang. Við búum ekki bara til verðmæti úr úrganginum með því að flokka og endurvinna; við græðum líka landið og ekki síst komum við í veg fyrir stórfellda mengun, því lífrænn úrgangur veldur losun gróðurhúsalofttegunda ef hann er urðaður.“

FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Getur moltan komið í staðinn fyrir innfluttan, tilbúinn áburð ?

„Það væri óskandi, því þetta er lífrænn og umhverfisvænn áburður. Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni notkun á moltu til endurheimtar vistkerfa og annarra landbóta, í verkefnum þar sem annars væri notaður tilbúinn áburður. Í lífrænum úrgangi eru mikilvæg næringarefni, sem annars er sóað, nýtt inn í vist- og hagkerfi landsins. Rannsókn sem Skógræktin framkvæmdi, bendir til að moltan geti komið í staðinn fyrir tilbúinn áburð. Molta hefur til dæmis mjög góð áhrif á vöxt birkis á erfiðum svæðum. Það kemur í ljós að áhrifin frá moltunni vara í nokkur ár og upp úr sandi sprettur staðargróður sem lítið bar á áður.”

Hversu umfangsmikið er þetta verkefni Landgræðslunnar og Terra í Krýsuvík?

„Um 1500 m3 af moltu verður dreift á nærri 50 hektara lítt gróins lands og haldið verður utan um gögn um framkvæmd og árangur. Í lok verkefnisins verða niðurstöður teknar saman í skýrslu sem birt verður opinberlega, með það að markmiði að fleiri framleiðendur moltu, og notendur, geti nýtt sér niðurstöðuna. Að nota moltu sem áburð í tengslum við landgræðslu, og skógrækt til bindingar á CO2, er stórt skref í kolefnisjöfnun og innleiðingu á hringrásarhagkerfinu.“

Væri hægt að hugsa þetta ennþá stærra og meira?

„Mikið af lífrænum úrgangi fer ennþá til urðunar hér á landi. Því er verulegt svigrúm til að nýta þessa auðlind betur um land allt.

Terra getur aukið framleiðslu á moltu og leitar að fleiri samstarfsaðilum varðandi lífrænan úrgang. Molta sem er unnin upp úr lífrænum úrgangi er afbragðsdæmi um endurvinnslu og hringrásarhagkerfi sem við stefnum öll að; að koma efnislegum gæðum aftur til skila út í umhverfið.

Stór þáttur í því er flokkun og endurvinnsla; að vera þátttakandi í hringrásarhagkerfinu er ekki einungis okkar ábyrgðarhlutverk gagnvart jörðinni, heldur einnig hagkvæmara fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækja sem axla þessa ábyrgð. Við hjá Terra þjónustum fjölmörg íslensk fyrirtæki og sveitarfélög. Það er mjög ánægjulegt að finna áhuga þeirra á að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni.“

frettabladid.is sótt 02/07/2020