Birtist í leiðara Viðskiptablaðsins 23. otkóber 2022

Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur.

Í vikunni var skýrsla verkfræðistofunnar Eflu um orkuþörf Íslendinga í ljósi áforma um orkuskipti kynnt.

Efla vann skýrsluna fyrir Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun og Samorku. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að tvöfalda þarf orkuframleiðslu í landinu á næstu áratugum til að ná fram markmiðum orkuskipti. Rétt er að taka fram að þessi útreikningur miðast við núverandi orkuþörf og tekur þar af leiðandi ekki til aukinnar orkuþörf sem kann að koma til vegna hagvaxtar.

Með öðrum orðum þurfa Íslendingar að framleiða að minnsta kosti 16 tetravött til viðbótar við núverandi orkuöflun hér á landi til að hægt verði að láta af núverandi notkun af jarðefnaeldsneyti. Fram kemur í skýrslunni að þegar húshitun er undanskilin þá knýr olía um 40% af hagkerfinu. Þetta háa hlutfall kemur væntanlega mörgum á óvart og það undirstrikar þær áskoranir sem eru fram undan þegar kemur að orkuskiptum.

Skýrslan og vefsvæði sem var opnað í tengslum við kynningu hennar er mikilvægt framlag til upplýstrar umræðu um orkuskipti og raunhæfar aðgerðir í þeim efnum. Því miður hefur umræðan til þessa einkennst af miklu óraunsæi.

Þannig hafa félagasamtökin Landvernd talað fyrir því að ráðist verði í orkuskipti án þess að raforkuframleiðsla verði aukin. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið eru í raun og veru að leggja til endalok hagvaxtar og að markmið um efnahagslega framþróun verði lögð til hliðar. Enn aðrir myndu segja að þetta væri ígildi þess að landsmenn sættu sig við þau lífskjör sem voru í boði á sjöunda áratugnum.

Málflutningur Landverndar snýr með öðrum orðum að því að hægt sé að nýta raforkuna sem stórnotendur nota nú til orkuskipta innanlands. Sum stjórnmálaöfl og jafnvel einstaka embættismaður í orkugeiranum hefur einnig talað fyrir þessu sjónarmiði. Þessi röksemdafærsla heldur engu vatni.

Sjónarmið Landsverndar tekur ekki mið af þeirri staðreyndar að raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur. Til dæmis rafknúin faratæki af ýmsu tagi. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það mætti í raun líkja þessu við að Ísland léti af innflutningi á matvælum, drægi úr útflutningi á sjávarafurðum og neytti þeirra innanlands í auknum mæli. Minni útflutningstekjur sætu eftir á Íslandi, sem þýddi að minna væri til skiptanna til að fjármagna innflutning, sem leiðir óumflýjanlega af sér skert lífsgæði á Íslandi.

Á undanförnum árum hefur enginn skortur verið á fundarhöldum um áskoranir í loftlagsmálum og nauðsyn orkuskipta til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í þeim efnum. En á sama tíma hefur lítið þokast áfram þegar kemur að því að auka orkuvinnslu hér á landi. Svo virðist sem margir ætla að berja hausinn við steininn og neita að horfast í augu við þá staðreynd að orkuskipti geta ekki átt sér stað án þess að raforkuöflun verði aukin til muna.

Það er löngu tímabært að sú kyrrstaða sem ríkt hefur um orkuöflun um árabil verði rofin. Að öllum líkindum hafa mörg tækifæri farið nú þegar forgörðum þegar kemur að því að nýta vistvæna raforkuframleiðslu til uppbyggingar og eflingar græns iðnaðar. Að sama skapi er ljóst að langt ferli er framundan áður en hægt verður að ráðast í frekari virkjunarframkvæmdir.

Það er tímabært að umræða um orkuskipti haldist í hendur um hvernig tryggja eigi efnahagslegan framgang hér á landi og bætingu lífskjara til frambúðar. Um það hlýtur að ríkja breið pólitísk sátt þegar allt kemur til alls. Lítið en mikilvægt skref var stigið í þeim efnum á Alþingi í gær.

Sótt 24/10/2022