Breska fréttastofan Sky News fjallar ítarlega um bráðnun jökla á Íslandi og áhrif hamfarahlýnunar á náttúru landsins í dag. Greinin er birt undir fyrirsögninni Örvæntingarfullt kall á hjálp frá Íslandi: „Jöklarnir okkar eru hitamælir heimsins – og þeir eru að hverfa“ en í henni lýsir fréttamaður Sky ferð sinni upp á Breiðamerkurjökul í fylgd íslensks jöklafræðings. 

Umfjöllunin hefst á því að rætt er við Hauk Einarsson leiðsögumann sem farið hefur með ferðamannahópa á Vatnajökul. Hann segir kórónuveirufaraldurinn hafa þurrkað viðskiptin út á vormánuðum og aftur nú í ágúst en hann fylgir fréttamanni Sky að Breiðamerkurjökli.

„Jökullinn væri við hliðina á veginum fyrir hundrað árum. Í stað þess, eftir að hafa hopað í heila öld, er hann yfir átta kílómetra í burtu,“ segir í umfjöllun Sky. „Jökullinn hefur smám saman bráðnað í burtu síðustu öldina, hörfað. Nú virðist hann bráðna hraðar en nokkru sinni fyrr.“

Fréttamaður Sky hittir fyrir Snævarr Guðmundsson jöklafræðing á Breiðamerkurjökli. Sá fyrrnefndi lýsir því í greininni að það komi honum á óvart að jökulbreiðan sé ekki skjannahvít heldur líti hún út fyrir að vera „skítug“.

Snævarr lýsir því aðspurður að það sé algjört reiðarslag að fylgjast með jöklinum minnka með hverri heimsókninni.

„Það kemur manni á óvart hversu hratt það gerist. Þú trúir því ekki hvað ísinn hefur verið þykkur fyrir hundrað eða 130 árum. Það er svo erfitt að trúa því að nákvæmlega þar sem við stöndum hafi yfirborð íssins verið um 250 metrum hærra en það er nú. Það er svo skrýtið að hugsa um það. Þú venst því aldrei,“ segir Snævarr.

Þá innir fréttamaðurinn hann eftir því hvernig yrði umhorfs ef hann kæmi á sama stað eftir fimm ár. „Þú stæðir á jörðinni, ekki á ís,“ svarar Snævarr og yppir niðurlútur öxlum.

Greinina í heild má nálgast hér.

visir.is sótt 10/09/2020