Á Hellisheiði eru áform um að stækka til muna verksmiðju sem framleiðir umhverfisvænan próteingjafa. Hugmyndin var sniðin að aðstæðum við Hellisheiðarvirkjun og eini úrgangur frá verksmiðjunni er súrefni.

Gera má ráð fyrir að á næstu 30 árum verði jarðarbúar orðnir um 10 milljarðar talsins – og þann fjölda þarf að brauðfæða.  Fyrirtækið Vaxa technology var stofnað árið 2017. Í verksmiðjunni eru ræktaðir þörungar í kerjum.  Hugmyndin kemur frá bandarískum og ísraelskum hópi vísindamanna og fjárfesta sem komu hingað til lands og klæðskerasniðu hugmynd sína að Hellisheiði.

„Við fáum orku, við fáum rafmagn, við fáum heitt og kalt vatn, við fáum kælivatn. Við erum með landið hérna frá ON og kerfið er hannað utan um þessi atriði til að búa til mat á sem hagkvæmastan og þægilegastan hátt með eins litlu umhverfisspori og hægt er,“ 

Og hvert er umhverfissporið?

Neikvætt. Við erum með neikvætt sótspor,“ segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa technology á Íslandi.

Þörungar eru einfruma lífverur sem ljóstillífa. Þeir fá orku frá LED ljósum í stað sólarljóss og umbreyta koltvísýringi og vatni í lífmassa. Daglega er svo tekið jafn mikið út úr kerfinu og vex þar á dag. Útkoman, lífmassinn, er góður próteingjafi. Matvælaframleiðsla framtíðarinnar stendur frammi fyrir mikilli áskorun við að fullnægja vaxandi próteinþörf jarðarbúa. 

„Varan okkar er fólgin í biomassa. Þörungurinn hann fjölgar sér með frumuskiptingu þannig að hann tvöfaldar sig á ákveðnum tíma, og eina afgangsvaran, eða úrgangsvaran er súrefni,“ segir Kristinn.

Stærstur hluti framleiðslunnar er fluttur til útlanda, og er notaður til manneldis, í fiskafóður, litarefni í matvæli, snyrtivörur og fleira. 

„Við erum á fósturstigi í dag, við erum búin að fulllesta fyrsta húsið okkar sem er 500 fermetrar, erum að byggja 1000 fermetra hús núna, og við munum eyða næstu 12-18 mánuðum í að fulllesta það með vélum. Svo er planið að stækka úr 500 fm í 15.000 fm.

Einnig var fjallað var um verksmiðjuna í þáttunum Hvað getum við gert? sem má sjá hér.

ruv.is sótt 07/03/2021