Birtist fyrst á mbl.is  5.5.2021

Stofnuð hef­ur verið skrif­stofa lofts­lagsþjón­ustu og aðlög­un­ar á Veður­stofu Íslands. Þetta til­kynnti Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra á árs­fundi Veður­stofu Íslands sem hald­inn var í dag.

„Í dag stíg­um við mik­il­vægt skref fram á við og þar er mér mik­il ánægja að til­kynna um aukið fram­lag [um­hverf­is]ráðuneyt­is­ins til Veður­stofu Íslands svo koma megi á sér­stakri skrif­stofu hjá stofn­unni, skrif­stofu lofts­lagsþjón­ustu og aðlög­un­ar,“ sagði ráðherr­ann í er­indi sínu á árs­fundinum. 

Skrif­stof­an á að vera, sam­kvæmt til­kynn­ingu Veður­stof­unn­ar sem fylgdi ávarpi ráðherr­ans, vett­vang­ur fag­stofn­anna og hagaðila. Mun skrif­stof­an styðja sam­fé­lagið í ákvörðunum og aðgerðum vegna aðlög­un­ar að áhrif­um lofts­lags­breyt­inga. Auk þess mun skrif­stof­an sinna sam­starfi á þessu sviði við alþjóðastofn­an­ir og sinna miðlun um áhrif lofts­lags­breyt­inga til hags­munaaðila og al­menn­ings.

Veður­stofa Íslands mun veita skrif­stofu lofts­lagsþjón­ustu og aðlög­un­ar for­ystu, en skrif­stof­an verður sam­eig­in­leg­ur vett­vang­ur há­skóla­sam­fé­lags­ins, Rannís, fag­stofn­ana og hagaðila. Þor­steinn Sigðurs­son, for­stjóri Haf­rann­sókn­ar­stofn­un­ar sagði á árs­fund­in­um að hann vonaðist til þess að skrif­stof­an valdi því að stjórn­völd og vís­inda­sam­fé­lagið verði meira sam­stíga í viðbrögðum þeirra við lofts­lags­breyt­ing­ar.

Brú milli vís­inda og sam­fé­lags

„Á sama hátt og við bregðumst við þegar nátt­úru­vá á borð við eld­gos á Reykja­nesskaga dyn­ur yfir eða of­an­flóð á Seyðis­firði, þarf sam­fé­lagið að beita rétt­um aðgerðum við að vakta og tak­ast á við lofts­lags­breyt­ing­ar. Þær aðgerðir þurfa að byggja á vís­inda­leg­um grunni og þá töl­um við gjarn­an um að mynda „brú milli vís­inda og sam­fé­lags,“ sagði Árni Snorra­son, for­stjóri Veður­stofu Íslands, í til­kynn­ing­unni.

Lofts­lags­breyt­ing­ar og áhrif þeirra á ís­lensku sam­fé­lagi voru miðpunkt­ur árs­fund­ar Veður­stofu Íslands og snertu all­ir mæl­end­ur á því umræðuefni, þar á meðal Hall­dór Björns­son hóp­stjóri veðurs og lofts­lags á Veður­stofu Íslands og Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, pró­fess­or í um­hverf­is- og auðlinda­fræði við Há­skóla Íslands.

Veður­stofa Íslands er tengiliður Íslands við milli­ríkja­nefnd Sam­einuðu þjóðanna um lofts­lags­breyt­ing­ar (IPCC)  í umboði um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is­ins. Þær niður­stöður sem birt­ar hafa verið í skýrsl­um IPCC eru vís­inda­leg­ar for­send­ur fyr­ir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hef­ur verið í til að upp­fylla lofts­lags­samn­ing Sam­einuðu þjóðanna (UN­FCCC) og bók­an­ir hans, þar á meðal Kyoto- og Par­ís­ar­samn­ing­inn.

mbl.is sótt 05/05/2021