Eftirfarandi birtist á vef Íslandsbanka 21/04/2021

Með nýrri lausn býður Íslandsbanki notendum Íslandsbankaappsins að sjá áætlað kolefnisspor sitt. Bankinn nýtir til þess lausn, Carbon Insight, frá fjártæknifyrirtækinu Meniga, sem áætlar kolefnisspor einkaneyslu fólks. Íslandsbanki er meðal fyrstu banka í heiminum sem nýtir lausnina.

Lausnin er í samræmi við markmið Íslandsbanka um að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi. Aðgerðir í loftslagsmálum er eitt fjögurra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur tileinkað sér og viðskiptavinir hafa lýst yfir miklum vilja til að styðja við sjálfbærnistefnu bankans. Því hefur Íslandsbanki stigið það skref að auðvelda viðskiptavinum sínum yfirsýn yfir kolefnisspor þeirra. 

Kolefnisspor færslna er reiknað út með því að nota gagnagrunn, Meniga Carbon Index, sem inniheldur kolefnisspor um 80 útgjaldaflokka. Þegar vara eða þjónusta er keypt er færsluupphæð margfölduð á móti kolefnisgildi viðkomandi útgjaldaflokks. Með þær upplýsingar að vopni getur fólk hagað innkaupum sínum og neyslu með þeim hætti sem er best til þess fallinn að draga úr kolefnisspori þeirra. 

„Meðal almennings ríkir bæði vilji og áhugi fyrir því að takmarka kolefnisspor og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfið. Það er því með miklu stolti sem Íslandsbanki býður viðskiptavinum sínum að hafa betri yfirsýn yfir kolefnisspor einkaneyslu og því hvernig sporið skiptist eftir útgjaldaflokkum – og auðvelda þeim þannig að draga úr kolefnisspori sínu á áhrifaríkastan hátt.
Með því að sjá svart á hvítu hvaða innkaup valda mestri mengun, geta viðskiptavinir Íslandsbanka skipulagt innkaup sín með það fyrir augum að lágmarka kolefnisspor sitt og um leið útgjöld. Með þessu viljum við ásamt viðskiptavinum okkar vera hreyfiafl til góðra verka.“
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

islandsbanki.is sótt 21/04/2021