Votlendissjóður endurheimti 135 hektara af votlendi í fyrra og stefnir á tvöfalt meira í ár. Góð tíð í haust gerði mögulegt að fylla upp í skurði fram að jólum.

Snjóþyngsli síðasta vetur gerðu að verkum að ekki var hægt að ráðast í endurheimt á fyrri hluta ársins 2020, eins og Votlendissjóður lagði fyrst upp með. Því hófst ekki endurheimt fyrr en á seinni hluta ársins, að loknum varptíma.

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir að góð tíð í haust, sem entist allt fram í janúar, hafi hins vegar orðið til þess að hægt var að moka ofan í skurði fram að jólum.

„Á vetrarsólstöðum, 22. desember, þar voru verktakarnir með okkur að klára. Því að létt frost, jafnvel mikið frost, er ekki endilega vandamál í endurheimt. “

Í fyrra endurheimti Votlendissjóður rúmlega 130 hektara á fjórum jörðum og Landgræðslan endurheimti álíka mikið. 

„Báðir aðilar eru að endurheimta meira 2020 en 2019 þannig að þetta fer hægt og rólega upp á við og við erum með væntingar um að ná að tvöfalda það á þessu ári, allavega. Það hefur verið okkar áhyggjuefni að fá fleiri jarðir til samstarfs en það hefur verið að koma núna í janúar og við erum bara mjög brött og bjartsýn fyrir þetta ár.“

Mat Umhverfisstofnunar er að landnotkun, þar á meðal framræst votlendi, sé ástæðan fyrir um 65 prósentum af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þá kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga á síðasta ári að endurheimt votlendis sé áhrifaríkasta leiðin til að draga úr losun. Þar segir að rekja megi 85 prósent losunarinnar á Suðurlandi til landnotkunar.

rus.is sótt 02/02/2021