Sprotafyrirtækið IceWind söðlar nú um og hyggst hefja sölu á vindtúrbínum í Bandaríkjunum. Helmingur starfsmanna fyrirtækisins er nú í Texas-fylki. Stjórnarformaðurinn segir túrbínurnar prófaðar í illviðrum hér á Íslandi.

INNLENT

Vindmyllufyrirtæki á bandarískan markað

Sprotafyrirtækið IceWind söðlar nú um og hyggst hefja sölu á vindtúrbínum í Bandaríkjunum. Helmingur starfsmanna fyrirtækisins er nú í Texas-fylki. Stjórnarformaðurinn segir túrbínurnar prófaðar í illviðrum hér á Íslandi.

Íslenska sprotafyrirtækið IceWind söðlar um og opnar brátt starfsemi í Texas-fylki í Bandaríkjunum. Fyrirtækið framleiðir og selur litlar vindtúrbínur fyrir einkaaðila og stofnanir.

Þróunin hófst árið 2014 og starfsmenn fyrirtækisins eru nú tíu, fimm á Íslandi og fimm í Bandaríkjunum, þaðan sem fjárfestirinn Daryl Losaw kemur. Sæþór Ásgeirsson stjórnarformaður segir að nú sé verið að undirbúa að koma bandarísku starfseminni af stað og eigi fyrstu viðskiptin að fara fram á næstu sex mánuðum.

Um er að ræða tvær tegundir af túrbínum sem hafa fengið heitin Freya og Njord fyrir Bandaríkjamarkað. Freya fyrir sumarhús og kerfi þar sem útlit skiptir máli, til dæmis strætisvagnaskýli. En Njord er hönnuð fyrir möstur, svo sem fyrir fjarskipta- eða eftirlitskerfi.

INNLENT

Vindmyllufyrirtæki á bandarískan markað

Sprotafyrirtækið IceWind söðlar nú um og hyggst hefja sölu á vindtúrbínum í Bandaríkjunum. Helmingur starfsmanna fyrirtækisins er nú í Texas-fylki. Stjórnarformaðurinn segir túrbínurnar prófaðar í illviðrum hér á Íslandi.

icewind.jpg
Freya-túrbínan sem smíðuð var á Íslandi var til sýnis í Corpus Christi í Texas fyrir skemmstu. Mynd/aðsend

„Við erum að einblína á þá turna sem eru keyrðir á dísilolíu, sem eru óheyrilega margir, eða 18 prósent af fjarskiptakerfinu í heiminum,“ segir Sæþór. En með vindtúrbínum yrðu þessir turnar sjálfbærir með orku.

Sæþór segir að þróunin hafi verið unnin hér á Íslandi og túrbínurnar prófaðar í verstu veðrum. „Markmiðið fyrir turnatúrbínurnar var að þær þoli allt sem getur gerst hér, 70 til 80 metra á sekúndu á hálendinu og aðeins lægra á láglendi,“ segir hann. „Við höfum verið að setja upp túrbínur fyrir Landsvirkjun þar sem þeir eru að keyra eftirlitskerfi fyrir uppistöðulónin.“

Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að verða kolefnislaus fyrir árið 2030 og er nú að skipta út þeim kerfum sem keyra á jarðefnaeldsneyti. Sæþór segir að samtal sé einnig hafið við Veðurstofuna sem einnig reki ýmiss konar kerfi um allt land. Aðrar stofnanir sem keyri lítil kerfi í óbyggðum séu til dæmis Neyðarlínan og Vegagerðin.

Samkvæmt Sæþóri kostar Freya-túrbínan frá 3.200 dollurum, eða 430 þúsund krónum. „Við erum ekki að keppa við ódýrari túrbínur sem eru smíðaðar í Asíu, það er ekki hægt. Þetta er smíðað úr koltrefjum, ryðfríu stáli og áli sem hentar fyrir flugvélar. Þetta eru græjur sem eiga að endast endalaust,“ segir hann. Þá segir hann að útlitið skipti einnig miklu máli.

Aðstæður geta verið mismunandi á hverjum stað og Sæþór segir það þjóna litlum tilgangi að setja svona túrbínur upp til dæmis á svæðum í Arizona þar sem hreyfir ekki vind en sólin skín skært. Þá séu sólarsellur hentugri. Annað gildi um vindasöm svæði þar sem sólarljósið er minna. En víða séu aðstæður þannig að sniðugt geti verið að hafa bæði sólarsellu og vindtúrbínu og kerfin tengd saman.

frettabladid.is sótt 06/08/2020