Matorka sérhæfir sig í umhverfisvænu fiskeldi á laxfiskum á landi. Endurfjármögnun upp á 1,3 milljarða króna og hlutafjáraukningu upp á rúmar 400 milljónir er ætlað að renna stoðum undir stóraukna framleiðslugetu.
Fiskeldisfyrirtækið Matorka er langt komið með að ganga frá endurfjármögnun upp á 1,3 milljarða króna, sem mun haldast í hendur við þriggja milljóna dala hlutafjáraukningu, jafngildi rúmlega 400 milljóna króna, samkvæmt heimildum Markaðarins.
Matorka sérhæfir sig í umhverfisvænu fiskeldi á laxfiskum á landi. Félagið er með eldisstöðvar í Grindavík, seiðaeldi að Fellsmúla í Landsveit á Suðurlandi og jafnframt fiskvinnsluhús í Grindavík sem sinnir flökun, frystingu og pökkun. Fjármögnun Matorku er ætlað að renna stoðum undir verulega aukningu á framleiðslugetu félagsins.
Uppbygging á eldiseiningu í Grindavík, sem tvöfaldar framleiðslugetuna úr 1.500 tonnum upp í 3.000 tonn á ári, er mjög langt á veg komin. Þá hefur félagið einnig nýlega fengið leyfi til að tvöfalda framleiðslugetuna aftur upp í 6 þúsund tonn. Aðaltegund Matorku er bleikja, en félagið hóf einnig slátrun á urriða í febrúar síðastliðnum, og er einnig með leyfi til laxeldis.
Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Kvika banki veitt Matorku ráðgjöf í fjármögnunarferlinu og Arion banki stendur á bak við endurfjármögnun skulda fiskeldisfélagsins.
Tekjur Matorku á síðasta ári námu rétt tæplega 700 milljónum króna og jukust um 28 prósent á milli ára. EBITDA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 76 milljónir króna.
Eignarhald í Matorku skiptist nokkurn veginn jafnt milli innlendra og erlendra fjárfesta. Stærsti hluthafinn er erlenda eignarhaldsfélagið Matorka Holding AG, en eftir því sem Markaðurinn kemst næst miðar fjármögnun Matorku meðal annars að því að losa um eignarhlut erlenda félagsins. Næststærsti hluthafinn er hollenski sjóðurinn Aqua Spark, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í sjálfbæru fiskeldi.
Þá eru þrír innlendir fjárfestar á lista yfir tíu stærstu hluthafa Matorku. Inning ehf., félag Bjarna Kristjáns Þorvarðarsonar, fer með rúmlega 8 prósenta hlut. Eldhrímnir ehf., sem er í eigu hjónanna Ingimundar Sveinssonar arkitekts og Sigríðar Arnbjarnardóttur, auk þriggja barna þeirra, á þriggja prósenta hlut og P 126 ehf., félag Einars Sveinssonar fjárfestis, er með rúmlega tveggja prósenta hlut.
frettabladid.is sótt 14/10/2020