Síðasta ár var heitasta ár sögunnar samkvæmt mælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA. Árið var 0,1 gráðu hlýrra en árið 2016, sem þar með er það næst hlýjasta í sögunni. Sjávar- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna greindi frá því fyrr í vikunni að 2020 hafi verið örlítið kaldara en 2016, líkt og mælingar bresku veðurstofunnar benda til. Loftslagseftirlit Evrópusambandsins segir árin 2016 og 2020 hnífjöfn.
Þrátt fyrir þennan mun sýna öll gögn fram á langvarandi hlýnun af völdum útblásturs jarðefnaeldsneytis, skógarhöggs og annarra mannanna verka. Síðustu sjö ár eru sjö heitustu ár sögunnar, og tíu hlýjustu árin hafa mælst á síðsutu 15 árum. Nú hefur árs-meðaltalshitastig mælst yfir meðalhitastigi 20. aldar í 44 ár í röð.
Kælandi áhrif veðurfyrirbrigðisins La Nina dugðu ekki til þess að sljákka í meðalhita síðasta árs. Guardian hefur eftir Zeke Hausfather, loftslagsvísindamanni hjá Berkeley Earth, að fyrirbrigðið eigi ef til vill eftir að hafa meiri áhrif á þessu ári. Hann segir þetta benda til þess að síðustu fimm ár hafi sem nemur El Nino veðurfyrirbrigði.
Hækkun hitastigs veldur bráðnun jökla, hærra yfirborði sjávar og leiðir til fleiri og dýpri óveðurslægða. Til að mynda varð metfjöldi alvarlegra náttúruhamfara í Bandaríkjunum í fyrra.
ruv.is sótt 15/01/2021