Stækkun þessi var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt sökum talsverðrar aukningar á notkun heits vatns á höfuðborgarsvæðinu umfram langtímaspár. Helstu ástæður aukningarinnar eru fjölgun íbúa og ferðamanna, mikil uppbygging húsnæðis, þ.m.t. hótelbygginga sem nota mikið heitt vatn og ekki síst, meiri notkun á hvern íbúa sem ekki var fyrirséð þegar spár voru gerðar. Þessi þróun hefur valdið álagi á heitavatnsborholur Veitna í Reykjavík og í Mosfellsbæ, einna helst þegar mjög kalt er í veðri til lengri tíma að því er segir í tilkynningu.
Heita vatnið sem kemur til notenda frá virkjunum Orku Náttúrunnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum er upphitað grunnvatn. Stækkun varmastöðvarinnar fól því í sér að bora þrjár kaldavatnsholur í Engidal auk þess að bætt var við einu varmaskiptapari og höfuðdælu.
Með aukinni framleiðslugetu virkjana á heitu vatni gefst kostur á því að taka hverfi í borginni af borholuvatni, sem er takmörkuð auðlind, og setja á vatn frá virkjunum. Veitur hafa undanfarið staðið í framkvæmdum með það fyrir augum að færa Árbæ, Ártúnsholt og síðar Sundahverfi af borholuvatni yfir á vatn frá virkjunum til frambúðar.
„Eldri hverfi Reykjavíkur fá vatn úr borholum Veitna. Færsla Árbæjar, Ártúnsholts og síðar Sundahverfis á vatn frá virkjunum gefur okkur rými til að mæta aukinni þörf í eldri hverfunum þar sem mikil uppbygging hefur verið í formi þéttingar byggðar. Stækkun varmastöðvarinnar er því eitt púsl í það stóra verkefni að sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni til húshitunar, bað- og sundferða og iðnaðar til langrar framtíðar og á sama tíma nýta með ábyrgum hætti þá dýrmætu auðlind sem heita vatnið okkar er,“ segir Arna Pálsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunarverkefna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélagi ON og Veitna.
mbl.is sótt 08/10/2020