Birtist fyrst á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins10. júní 2021
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda.
Vinna við hvítbókina hefur staðið yfir frá því í desember 2020. Það var í lok síðasta árs sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp til að vinna tillögu að stefnu stjórnvalda varðandi aðlögunarmálin. Afrakstur þeirrar vinnu, hvítbók er nú sett í samráðsgátt til að tryggja víðtækt samráð um stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Horft verður til hvítbókarinnar og athugasemda sem við hana berast við gerð stefnu og mótun heildstæðrar áætlunar íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Aðlögun að loftslagsbreytingum er viðamikið verkefni sem mikilvægt er að taka á með heildstæðum hætti, en felur í sér að setja fram aðgerðir til að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn áhrifum slíkra breytinga.
Vinna við hvítbók felur í sér umfjöllun, markmið, árangur og gildi sem byggt er á. Að loknu samráði er farið yfir helstu sjónarmið sem þar koma fram áður en hin endanlega stefna er útfærð. Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum fjallar um aðlögun að loftslagsbreytingum, áhrifum breytinganna og þeirri náttúruvá sem þeim kann að fylgja. Meðal annarra viðfangsefna stefnunnar eru m.a. tillögur að grunngildum og grunnmarkmiðum stjórnvalda til að vinna út frá vegna loftslagsbreytinga, auk sértækra markmiða fyrir tiltekna málaflokka, s.s. varðandi mismunandi þætti samfélagsins þar sem aðlögunar kann að vera þörf. Má þar nefna skipulag, vatn og fráveitur, orkumál, samgöngur, atvinnuvegi, þjóðarhag, lýðheilsu og félagslega innviði. Einnig er farið yfir núverandi stofnanagerð og næstu skref.
„Aðlögun að loftslagsbreytingum er mjög víðfeðmt viðfangsefni sem samfélagið í heild þarf að tileinka sér á næstu árum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér ýmiss konar samfélagsleg áhrif. En ef rétt er á málum haldið geta aðgerðir til aðlögunar skapað samfélaginu sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en ella og á sama tíma skapað ný störf. Þess vegna er aðlögunarvinnan sem nú er hafin svo mikilvæg.“
Umsögnum skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 23. júní næstkomandi.
Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum — Drög að stefnu
stjornarradid.is sótt 14/06/2021