Á innan við 30 árum hafa 28 trilljón tonn af ís horfið að yfirborði jarðar. Gervihnattamyndir af Norðurpólnum, Suðurskautinu, jöklum og fjöllum heimsins sýna að bráðnun íss getur leitt til hækkunar sjávarborðs um allt að einn metra fyrir lok aldarinnar.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við háskólana í Leeds, Edinborg og University College í London. Rannsóknin stóð yfir frá 1994 til 2017 og birtist nýverið í vísindatímaritinu The Cryosphere.
Dekkstu sviðsmyndir IPCC
Að sögn rannsakenda eru niðurstöðurnar verulega sláandi og í samræmi við dekkstu sviðsmyndir IPCC – Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Niðurstöðurnar eru einnig í samræmi við rannsókn sem nýverið birtist í tímaritinu Nature Climate Change. Þar kemur fram að sumarhafísinn á Norðurskautinu kunni að vera horfinn með öllu árið 2035.
Rannsakendur telja yfirgnæfandi líkur á því að bráðnunin sé bein afleiðing hlýnunar jarðar og aukinna gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Sláandi niðurstöður
Andrew Shepherd, prófessor við háskólann í Leeds og einn rannsakenda, segir í samtali við The Guardian að niðurstöðurnar séu afgerandi og mjög sláandi. Þær bendi til þess að yfirborð sjávar kunni að hækka um allt að einn metra fyrir lok aldarinnar.
Til þess setja slíkar hamfarir í samhengi, mætti áætla að fyrir hvern sentimetra af hækkun sjávarborðs geti heimili um milljón íbúa jarðarinnar verið ógnað. Heimili 100 milljóna geti því verið í hættu vegna bráðnunar íss.
Shepherd segir að hraði bráðnunar íssins sé í takti við dekkstu sviðsmyndir og framtíðarspár IPCC – Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin vaktar ástand hamfarahlýnunar og gefur út skýrslur þar sem fjallað er um afleiðingar og áhættuþætti hlýnunar og hvernig sporna megi við og aðlagast þeim breytingum sem framundan eru.
28 trilljón tonn af ís horfin
Þetta er í fyrsta sinn sem gerðar eru samræmdar mælingar á yfirborðsís á jörðinni. Að sögn Shepherd eru niðurstöðurnar skelfilegri en rannsakendur hafi búist við. Ekkert lát sé á bráðnuninni en alls hafi um 28 trilljón tonn af ís horfið af yfirborði jarðar á innan við þremur áratugum síðan mælingarnar hófust árið 1994.
Þar af hafi 7,6 trilljón tonn bráðnað af ísjökum á Norðurslóðum, 6,5 trilljón tonn af ísjökum horfið við Suðurskautið og ísbreiður á fjöllum heimsins dregist saman um 6,2 trilljón tonn. Þá hafi Grænlandsjökull minnkað um 3,8 trilljón tonn og 2,5 trilljón tonn af ís bráðnað á Suðurskautinu sjálfu. Ísjakar í suðrænum heimshöfum hafi auk þess bráðnað um 0,9 trilljón tonn.
Forsenda samfélaga brestur
Shepherd segir að ísbreiður á jörðinni hafi allar tapað gríðarmiklum massa á tímabilinu. Fyrir vikið minnki geta andrúmsloftsins til þess að hleypa geislum sólar aftur út, sem auki gróðurhúsaáhrif og hraði áhrifum hlýnunar jarðar.
Ferskvatn sem renni til sjávar af bráðnandi ísbreiðum á Norðurslóðum og við Suðurskautið hafi auk þess mikil áhrif á vistkerfi sjávar. Til viðbótar hafi jöklar sem hopi og bráðnun íss til fjalla þau áhrif að uppsprettur ferskvatns þorni upp, sem aftur hafi þau áhrif að forsenda staðbundinna samfélaga í návígi við ísbreiðurnar bresti.
ruv.is sótt 25/08/2020