turisti.is birti eftirfarandi frétt þann 26. september 2022
Margir óttast að framundan séu frekari hækkanir á flugfargjöldum.
Johan Lundgren, forstjóri EasyJet, sagðist í dag sannfærður um að
forysta félagsins um að þróuð verði flugvélatækni sem tryggði
kolefnishlutleysi væri rétta leiðin til að halda niðri verði á fargjöldum.
Kolefnislosun verður mjög kostnaðarsöm ef ekki er tekinn í notkun búnaður sem stuðlar að sjálfbærni. Skattar á losun eiga bara eftir að hækka. Það er algjörlega í takti við stefnu okkar um að vera vel rekið lággjaldaflugfélag að taka forystuna í þessum efnum,” sagði Johan Lundgren á samkomu sem haldin var í höfuðstöðvum EasyJet í London í dag.
Ferðavefurinn Skift hefur þetta eftir forstjóra EasyJet og bendir réttilega á að sjálfbært þotueldsneyti (SAF), sem er með íblöndunarefnum, er enn sem komið er miklu dýrara en venjulegt eldsneyti og jafnvel ófáanlegt, þrátt fyrir aðgerðir margra ríkisstjórna og hvata sem kynntir hafa verið til að greiða fyrir framleiðslu og sölu þessara vistvænni gerða eldsneytis.
EasyJet stefnir að því að ná kolefnishlutleysi árið 2050. Liður í þeirri áætlun er að kynna til sögunnar kolefnishlutlausa 150 sæta farþegaþotu kringum árið 2040, einnig að endurnýja flota félagsins með Airbus A320neos-vélum, aukinni hagræðingu í rekstri á jörðu niðri, nýjum leiðum í nýtingu loftrýmis og með notkun á sjálfbæru eldsneyti (SAF). Með þessum aðgerðum er stefnt að því að draga úr losun á hvern farþega um 78 prósent árið 2050 miðað við 2019
Lundgren gat þess í dag að hann hefði þegar ritað nýjum forsætisráðherra og samgönguráðherra Bretlands bréf og hvatt til þess að stjórnvalda beittu sér fyrir aðgerðum sem stuðlað geta að kolefnishlutleysi, m.a með endurskoðun reglna sem gilda um flug í Evrópu og áhrif hafa á eldsneytisnotkun.