BYKO vinnur að innleiðingu fjögurra heimsmarkmiða SÞ inn í alla starfsemi fyrirtækisins.
BYKO leggur mikið upp úr samfélagsábyrgð og sjálfbærni til framtíðar. Stjórnendur og starfsfólk leggja mikið upp úr góðum stjórnunarháttum og áherslu á jákvæð langtímaáhrif á starfsemina.
Samfélagsábyrgð hefur verið hluti af rekstri BYKO frá stofnun þess árið 1962 en þá stunduðu eigendur garðrækt og síðar meir skógrækt til að láta gott af sér leiða til náttúrunnar, segir Berglind Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá BYKO.
„Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á umhverfismál og samfélagsábyrgð en nú er tímabært að hugsa lengra inn í reksturinn með sjálfbærni að leiðarljósi. Sjálfbærni byggist ekki eingöngu á umhverfismálum, heldur einnig á félagslegum þáttum, menningarmálum, heilsu og velferð og efnahagslífi.“
Viðurkennd umhverfismerki
BYKO hefur sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, mæla árangurinn og upplýsa um stöðu mála, segir Berglind.
„Við leggjum áherslu á að umhverfisvottuðu vörurnar okkar séu vottaðar af óháðum aðilum og að umhverfismerkin séu viðurkennd merki. Timbur er almennt umhverfisvænt byggingarefni og allt okkar timbur kemur frá sjálfbærri skógrækt en vottun á skógrækt þýðir að timbrið sé ræktað samkvæmt ákveðnum sjálfbærniviðmiðum. BYKO kaupir rekjanleikavottað timbur þar sem allir helstu birgjar fyrirtækisins eru með rekjanleikavottun.“
Árið 2019 setti BYKO sér heildstæða sjálfbærnistefnu byggða á þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtækið vinnur að ásamt því að gefa út fyrstu samfélagsskýrslu fyrir rekstrarárið 2019.
Ánægðara starfsfólk
Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá BYKO segir það mestu máli skipta, bæði í dag og til framtíðar, að starfsfólki fyrirtækisins líði sem best í vinnunni, að upplifun viðskiptavina sé sem best og að þekking og upplýsingagjöf skili sér til neytenda, viðskiptavina, starfsfólks og birgja fyrirtækisins.
„Helsti ávinningur samfélagsábyrgðar gefur betri og skýrari rekstur, rekstrarsparnað og hjálpar stjórnendum að greina helstu áhættuþættina, greina hvar tækifærin eru, hvar sóun er og gefur fyrirtækjum samkeppnisforskot á markaði. Starfsfólk verður einnig ánægðara, horft er til heilsu og öryggis starfsmanna og síðast en ekki síst vilja fyrirtæki mæta komandi kynslóðum þar sem þau hafa skyldur gagnvart þeim að ganga ekki um of á takmarkaðar auðlindir jarðar.“
Vistvæn byggingarefni
Byggingariðnaðurinn hefur lykilhlutverki að gegna í loftslagsmálum og er hann ábyrgur fyrir um 39 prósent af kolefnislosun og 40 prósent af úrgangsmyndun á heimsvísu, að sögn Berglindar.
„BYKO ber ábyrgð í þeirri virðiskeðju og í gegnum sjálfbærnistefnu fyrirtækisins leggjum við áherslu á að geta boðið upp á vistvæn byggingarefni í öllum okkar vöruflokkum til framtíðar. Þá skiptir máli að fræðsla sé í fyrirrúmi, bæði í innra starfi, þar sem starfsfólk okkar fær reglulega þjálfun í umhverfismálum og vistvænum byggingarefnum, sem og að fræða markaðinn um vistvænt vöruframboð og geta boðið viðskiptavinum upp á þann valmöguleika að velja vistvænni efni.“
Hvatning til nýsköpunar
BYKO hefur einnig skilgreint vistvænt vöruframboð sem hentar vel í framkvæmdir sem eiga að vera BREEAM vottaðar, en það er ákveðið vistvottunarkerfi sem kom fyrst fram árið 1990.
„Í dag er BREEAM með yfir 80 prósent markaðshlutdeild í Evrópu þegar kemur að mati á umhverfisáhrifum bygginga. Kerfið hefur verið mikil hvatning til nýsköpunar í byggingageiranum og er notað í yfir 70 löndum á heimsvísu. BYKO hefur því skilgreint inn á heimasíðu sinni þær vörur sem henta fyrir BREEAM annars vegar og Svaninn hins vegar.“
Fyrir nokkrum árum tók BYKO þátt í verkefni í samstarfi með Visthús þar sem fyrsta Svansvottaða íbúðarhúsið var byggt á Íslandi.
„Þar öðluðust starfsmenn BYKO mikla reynslu og þekkingu gagnvart vistvænum byggingum en hlutverk fyrirtækisins var að koma með vistvæn byggingarefni, annaðhvort Svansvottaðar vörur eða vörur sem væru leyfilegar í Svansvottuð hús.“
Einnig hófst nýlega samstarf milli BYKO og Visthönnunar um byggingu Svansvottaðs einbýlishúss í Hafnarfirði.
„Þar veitum við Visthönnun ráðleggingar varðandi efnisval. Með tilkomu þess verkefnis munum við geta miðlað þekkingu okkar áfram og öðlast nýja sýn og nálgun á Svansvottuð verkefni.“
Auknar kröfur hins opinbera
Í gegnum umhverfisstefnu fyrirtækisins býður BYKO upp á valmöguleikann á að kaupa vistvænni byggingarefni og hjálpa viðskiptavinum sínum með því að útvega ýmis gögn, til dæmis vottanir á verkefni sem er verið að byggja eftir ákveðnum vistvottunarkerfum, eins og til dæmis BREEAM.
„Þetta styður til að mynda við heimsmarkmiðið um ábyrga neyslu og framleiðslu. Ríki og sveitarfélög eru í auknum mæli farin að gera auknar kröfur um að byggingaraðilar byggi eftir ákveðnum vistvottunarkerfum. Svona kerfi taka á mörgum þáttum en vægi byggingarefna er þó mismikið,“ segir Berglind.
Með því að birta rétt gögn, til dæmis umhverfisyfirlýsingar eða hvers kyns vottanir sem til þarf í slík vottunarkerfi, þá er BYKO að auðvelda viðskiptavinum sínum, til dæmis hönnuðum, verkfræðingum, arkitektum og verktökum sem eru að byggja eftir slíku kerfi, að afla sér þessara gagna á auðveldari hátt.
„Við birtum þessi gögn í gegnum vöruframboð okkar á heimasíðu BYKO og með því móti geta þeir sem þurfa sótt sér þessi gögn sjálfir og fengið þau stig sem til þarf í viðkomandi vottunarkerfi, en BREEAM vottunarkerfið byggist á stigagjöf úr ýmsum flokkum, og er byggingarefni einn af þeim flokkum.“
Meðvituð um hlutverk sitt
Berglind segir samfélagsábyrgð og sjálfbærni skipta BYKO mjög miklu máli til framtíðar og að stjórnendur fyrirtækisins leggi mikið upp úr góðum stjórnarháttum og áherslu á jákvæð langtímaáhrif á starfsemina.
„Áskoranir BYKO liggja í að gera byggingariðnaðinn og byggingarefni á Íslandi umhverfisvænni. Við viljum stuðla að aukinni notkun timburs, bjóða upp á byggingarefni sem hafa ekki skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks og minnka kolefnisspor við flutninga, hvort heldur sem er innanlands eða á milli landa.
BYKO er leiðandi birgi byggingarefnis á Íslandi og gerir sér grein fyrir sínu hlutverki og ábyrgð.
Sjá nánar á byko.is
Þessi umfjöllun birtist fyrst í sérblaðinu Samfélagsábyrgð fyrirtækja, föstudaginn 25. febrúar 2021.
frettabladid.is sótt 01/03/2021