Rask við gróðursetningu vegna skógræktar gæti aukið kolefnislosun, að því er fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðrar skógræktar á Hallfríðarstöðum í Hörgárdal.
Þar er fyrirhugað að rækta skóg á 50 hektara svæði og óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögn Umhverfisstofnunar um hvort og á hvaða forsendum framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Í heildina litið telur Umhverfisstofnun ekki líklegt að framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í 18/03 2020.
í umsögn Umhverfisstofnunar segir:
„Umhverfisáhrif skógræktar fela almennt í sér fjölþætt áhrif. Skógrækt getur haft til jafns jákvæð eða
neikvæð áhrif á s.s. landslagsheildir, gróðurfar, búsvæði fugla og annarra dýra, vatnabúskap og
jarðveg. Með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu er þó ekki líklegt að umfang og styrkur áhrifa
verði verulegur. Gera má ráð fyrir því að áhrifa skógræktunar að Hallfríðarstöðum muni hafa nokkur
áhrif á ásýnd svæðisins á komandi árum og áratugum. Skipulagsstofnun telur mögulegt að draga úr
áhrifum með því að viðhafa vandaða verktilhögun við hönnun skógræktarsvæðisins og að val á
trjátegundum verði viðhaft í samræmi við umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.“
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir líka að eitt af markmiðum framkvæmdarinnar sé að binda kolefni í skóginum. Umhverfisstofnun vill benda á að á norðlægum slóðum er talið að mest kolefni sé bundið í jarðvegi, en röskun á yfirborði lands, t.d. með plægingu, getur leitt til aukinnar losunar á CO2 og er ekki með vissu vitað hvenær trjágróður sem gróðursettur er í plógfarinu muni fara að binda kolefni svo nokkru nemi en það gæti tekið all mörg ár.
Þetta er áhugavert og segir manni að það eru fleiri leiðir til að binda kolefni en skógrækt. Mikilvægt er að huga að þáttum eins og loftslagi og jarðvegi á viðkomandi svæði þegar tekin er ákvörðun um nýtinu þess. Kærufrestur, vegna þessarar umsagnar, rann út í lok júli og því verður forvitnilegt að fylgjast með því hvað gerist í Hörgárdalnum í náinni framtíð.
mbl.is sótt 19/08/2020
Umhverfisstofnun sótt 19/08/20202