Rafmagn uppfyllir nú 83% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja hér á landi og stefnt er að enn hærra hlutfalli á næstu árum.
Hlutfall rafmagns var 75% fyrir átak Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðandi sem hófst árið 2017.
Hlutfall rafmagns í orkukaupum fiskmjölsverksmiðja hefur þannig farið sívaxandi og hefur á tímabilinu 2017 til 2019 sparað brennslu á 56,5 milljón lítrum af olíu eftir því sem fram kemur í tilkynningu.
Við þetta minnkaði kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 168 þúsund tonn, en það jafngildir akstri 36.295 fólksbíla á einu ári.
Fiskmjölsframleiðendur hafa lengi stuðst við bæði olíu og rafmagn í framleiðslu sinni og keypt svokallað skerðanlegt rafmagn. Framboð á slíku rafmagni er hins vegar takmarkað og því hafa framleiðendur fiskmjöls þurft að reiða sig einnig á olíu, með tilheyrandi mengun.
Árið 2017 lýstu Landsvirkjun og FÍF (Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) því yfir að orkufyrirtækið myndi auka framboð á skerðanlegri raforku eftir föngum, en olía yrði áfram varaaflgjafi fiskmjölsframleiðenda. Þá bauð Landsvirkjun smásölum á raforkumarkaði að semja til lengri tíma en áður vegna áframsölu til fiskmjölsframleiðenda. Það varð fiskmjölsverksmiðjum hvati til að ráðast í þær fjárfestingar sem þurfti til að keyra framleiðsluna á rafmagni.
Vel hefur gengið að fylgja þessu eftir og hafa Landsvirkjun og FÍF því aftur lýst yfir að samskonar fyrirkomulag gildi til næstu þriggja ára.
mbl.is sótt 24/06/2020