Verkfræðistofan Efla reiknaði út sparnað á kolefnisspori við verslun í Barnaloppunni. Rúm fimm þúsund tonn í útblæstri koltvísýrings hafa sparast frá opnun og segir eigandi verslunarinnar viðhorf Íslendinga vera að breytast.
„Fyrir tæplega ári fengum við umhverfisverkfræðinga hjá Eflu til að reikna út kolefnisspor sem hafa sparast við verslun í Barnaloppunni og tölurnar eru vægast sagt sláandi,“ segir Guðríður Gunnlaugsdóttir, annar eigandi Barnaloppunnar. Hún stofnaði verslunina ásamt eiginmanni sínum, Andra Jónssyni, árið 2018 og segir umhverfið og endurnýtingu vera þeim hjónum hjartans mál. í versluninni getur hver sem er leigt bás og selt notaðar barnavörur.
Frá því að Guðríður og Andri opnuðu Barnaloppuna hafa sparast rúm fimm þúsund tonn í losun koltvísýrings út í umhverfið, það jafnast á við útblástur 2.500 bíla á einu ári. „Þessar tölur jafngilda einnig fullum klæðnaði á 80 þúsund íslensk börn,“ segir Guðríður og miðar þá við átta flíkur og tvö leikföng á hvert barn.
„Okkur fannst mikilvægt að láta kanna þessi umhverfisáhrif fyrir okkur til að geta sett þau í samhengi fyrir fólk svo það skilji af hverju við erum að þessu og að þetta skipti raunverulegu máli, þessi litlu skref,“ segir Guðríður. Hún segir marga þá sem selji notuð föt í Barnaloppunni vera meðvitaða um góð áhrif þess á umhverfið. „Auðvitað eru einhverjir sem gera þetta bara til að losna við það sem þau eru hætt að nota og græða smá pening í leiðinni, en mér finnst viðhorfið vera að breytast,“ segir hún.
„Við vorum alveg stressuð þegar við opnuðum af því að Íslendingar eru smá snobbaðir og það var eiginlega enginn vettvangur fyrir svona verslun hér. En núna þykir bara töff að kaupa notað og það er brjálað að gera,“ segir Guðríður. Aðsóknin í Barnaloppuna er slík að ekki er laus sölubás í versluninni fyrr en í desember. Þá hefur einnig myndast eftirspurn eftir verslun með sömu hugmyndafræði fyrir fullorðna og opnuðu Guðríður og Andri Extraloppuna í Smáralind fyrir rúmu ári. „Þar erum við að vinna eftir sömu hugmynd nema fyrir fullorðna.“
Á heimsvísu er áætlað að textílneysla hvers jarðarbúa sé 11,4 kíló af fatnaði á hverju ári og er textíliðnaðurinn talinn valda um átta prósentum gróðurhúsaáhrifa á jörðinni. Sú aðgerð sem talin er skila hvað mestum árangri í því að draga úr umhverfisáhrifum textíliðnaðarins er endurnýting og endurvinnsla.
Guðríður segir viðskiptavini sína opnari fyrir því að kaupa notaðar vörur fyrir sig og börnin sín en einnig hafi það færst í aukana að notaðar vörur séu keyptar í gjafir. „Það er ekki tabú lengur að kaupa sér eitthvað notað sjálfur og hvað þá kaupa eitthvað og gefa sem gjöf,“ segir hún.
frettabladid.is sótt 08/09/2020