Hvernig líst þér á þá hugmynd að gera jólin í ár að okkar vistvænustu jólum hingað til? Hversu litla breytingu sem þú ákveður að gera getur þú lagt þitt af mörkum til þess að minnka vistsporið þitt og þjóðarinnar um jólahátíðina. Að hugsa út fyrir kassann og breyta venjum er lykilatriði þegar kemur að því að minnka kolefnissporið sitt.

Með þetta í huga langar mig að benda á einfaldar leiðir til að hýsa umhverfisvænni jól. Þetta er engan vegin tæmandi listi um það hvað hver og einn getur lagt af mörkum til að minnka kolefnissporið sitt, þetta er bara örlítið brot af því sem hægt er að gera. Það er um að gera að taka bara lítil skref því það er vænlegast til árangur þegar til lengri tíma er litið.

Jólatréið

Hefur þú spáð í það að vera með tré í potti sem þú getur annað hvort gróðursett þegar frost er farið úr jörðu eða haft í potti úti í garði eða á svölunum, sé það af þeirri stærðargráðu? Flestar gróðrarstöðvar og skógræktir selja svona tré í pottum, þannig að auðvelt ætti að vera að nálgast þau. Þessi tré eru stundum kölluð tröpputré því þau geta staðið á tröppunum hjá þér eða á svölunum fram að jólum, þá er tilvalið að setja útiseríu á það til skrauts.

Tröpputré frá Garðplöntusölunni Hvammi tvö á Flúðum komið inn í stofu.

Það eru líka til jólatré sem gerð eru úr handsmíðuð úr íslenskum við og þau endast að eilífu, þetta eru svona tré eins og tíðkuðust í eldgamla daga, mjög sjarmerandi og flott. Þá er einnig hægt að fá lítil og sæt rennd jólatré sem eru líka úr íslenskum efniviði, ef þú vilt vera með mjög lítið jólatré.

Þú getur jafnvel smíðað þér jólatré en af nógu er að taka varðandi hugmyndir og útfærslur, bara sleppa hugmyndafluginu lausu eða fara á veraldarvefinn og finna rétta tréið til að smíða eða útbúa.

Ef þú vilt búa til þitt eigið og ert ekki góð / góður smiður má ná sér í mislanga lurka og binda þá saman með grófu bandi og hengja á vegg eða í loftið eins og á myndinni hér fyrir ofan. Ég hef líka séð jólatré búið til úr tröppum og svo mætti lengi telja. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þig vanti hugmyndir því á pinterest.com, er hægt að finna fjölmargar hugmyndir.

Ef þú ákveður að kaupa jólatré sem búið er að fella, passaðu þá uppá að það hafi ekki þurft að flytja það langar leiðir, heldur hafi það verið ræktað í þínu nærumhverfi.

Svo er líka engin skylda til að hafa jólatré en vissulega er það rík hefð og ekkert að því að skreyta hjá sér um jólin án samviskubits.

Að pakka inn gjöfunum

Notaðu pappír sem hægt er að endurvinna, endurnýttu pappír frá fyrra ári eða notaðu tilfallandi efnisbúta, það er líka hægt að nota gömul tímarit og dagblöð.

Það er auðvelt að komast að því hvort pappír sé endurvinnanlegur með „krumpu prófinu“. Þú einfaldlega krumpar hann og ef það sléttist aftur úr pappírnum eru allar líkur á að í honum séu óumhverfisvæn efni og hann því ekki endurvinnanlegur.

Skreytingar á pakkana geta komið viða að t.d. úr náttúrunni eða gömlum jólakortum og pappír, það fást líka umhverfisvænir litir svo hægt er að mála köngla eða hvað sem maður vill nota. Með því að smella hér getur þú séð margar hugmyndir að umhverfisvænni innpökkun.

Endurnýtanlegt jóladagatal

Hvernig væri að vera með jóladagatal sem þú getur notað ár eftir ár? Ég held að hverju barni og líka fullorðnum þætti skemmtilegt að opna jóladagatal sem búið er til af ást og umhyggju, í stað fyrirsjáanlegra fjöldaframleiddra dagatala.

Heimatilbúin dagatöl geta líka verið ódýrari þegar upp er staðið, því glaðningurinn þarf ekki að kosta hálfan handlegg. Falleg skilboð og litlir óvæntir hlutir gleðja líka.

Þessar hugmyndir fann ég á Pinterest.com

Jólakort

Jólakort sem send eru með löturpósti hafa því miður átt undir högg að sækja gagnvart hinum rafrænu kortum. Núna á tímum einangrunar og einsemdar hjá mörgum væri ekki úr vegi að senda gamaldags jólakort með löturpósti. Hvað myndi ylja meira um hjartarætur á þessum skrýtnu tímum en að handleika fallegt heimagert jólakort með hjartnæmri kveðju frá þeim sem manni þykir vænt um en getur ekki faðmað?

Það hefur komið í ljós að tölvupóstur skilur líka eftir sig kolefnisspor, það má heyra um það hér, svo það þarf ekki að hafa samviskubit yfir jólakortunum, maður velur bara vel hverjum maður vill senda til að halda fjöldanum í lágmarki.

Heimatilbúinn pappír með fræjum

Það er meira segja hægt að gera skemmtileg umhverfisvæn kort sem gefa af sér. Þú getur búið til pappír og bætt fræjum saman við og þá getur viðtakandinn ræktað plöntu eða matjurtir með því að gróðursetja pappírinn. Með því að smella hér kemstu á vefsíðu sem kennir þér hvernig maður fer að.

Það er líka hægt að kaupa kort sem eru með umhverfisvottunarmerki og stinga fræpoka með, ef þig langar til að gefa kort sem gefur af sér en hefur ekki tök á að búa það til.

Þú getur einnig búið til kort úr kortunum frá árinu á undan, þau þurfa nefnilega alls ekki að vera einnota.

Jólaskraut

Margir eru með skraut sem þeir tengja við minningar frá æskujólunum eða bara eitthvað sem hefur fylgt viðkomandi á fullorðinsárunum. Þeir sem eiga börn fá mjög oft ómetanleg verðmæti frá þeim í desember, sem skreyta heimilið ár eftir ár. Svo eru það hinir sem finnst þeir alltaf þurfa að vera að skipta út og kaupa nýtt en þá er gott að hafa í huga hvaðan dótið kemur sem þú kaupir, er það einnota eða sígilt og úr hverju er það gert.

Ef þér finnst gaman að gera þitt eigið jólaskraut og langar í eitthvað nýtt, þá er frábær hugmynd að safna hólkunum innan úr klósettrúllunum og gera stjörnur eins og eru hér á myndinni fyrir ofan. (það er linkur fyrir neðan myndina). Þetta er bara ein af fjölmörgum hugmyndum sem hægt er að finna á veraldarvefnum um nýtingu á verðlausum hlutum sem falla til á hverju heimili.

Keyptu umhverfisvænar gjafir

Góðu áformin geta fallið um sjálf sig ef við vitum ekki hvað fer í innkaupakörfuna okkar. Reyndu að velja vörur sem eru framleiddar í nærumhverfinu og eða umhverfisvottaðar, ef þú gerir það þá ertu á réttri leið. Það er alveg ótrúlegt úrval af Íslenskum vörum sem eru framleiddar með lágmarks kolefnisspori, því er ekki úr vegi að skoða það fyrst áður en leitað langt yfir skammt. Það má líka finna ýmsar gersemar á nytjamörkuðum, með því erum við að gefa hlutunum framhaldslíf. Svo má ekki gleyma því að ýmislegt er hægt að gera sjálfur og heimatilbúnar jólagjafir hvort sem það eru gjafir til að skreyta með, borða eða klæðast þá slá þær yfirleitt í gegn.

Mér finnast það lang bestu gjafirnar þegar einhver mér kærkominn er búin að leggja álúð og natni í að útbúa eitthvað handa mér. Hvað finnst þér?

Vistvæn jól þurfa því hvorki að vera litlaus né leiðinlegt þvert á móti geta þau verið bæði lítrík og skemmtileg.